Flugvélin var á 300 km hraða í brotlendingu í Færeyjum 1970

Páll Stefánsson fyrrv. flugstjóri hjá Icelandair var flugmaður Fokker vélar Flugfélags Íslands sem þá hét þegar vélin brotlenti í Mykinesi í Færeyjum í september árip 1970. Páll lifði slysið af en flugstjórinn Bjarni Jensson lést ásamt hluta af farþegunum. Við höggið rann vélin heila 80 m í grýttu og ósléttu jarðlendi á eyjunni Mykines þar til hún stöðvaðist. Það var kalt úti og nöturlegt þennan dag en Færeyingar unnu stórkostlegt afrek við að bjarga þeim sem lifðu slysið af og koma þeim undir læknishendur. Stefán rifjar þennan atburð upp í stuttu viðtali við Sigurð K. Kolbeinsson í þættinum Lífið er lag sem verður á dagskrá Hringbrautar kl. 21 í kvöld.

Þetta er 80. og jafnframt síðasti þáttur í bili af þessari vinsælu þáttaröð en þættirnir hófust upphaflega vorið 2018. Auk viðtals við Pál Stefánsson er sýnt frá heimsókn til Bridgesambands Íslands þar sem eldri borgarar koma saman vikulega og tveir þekktir eldri borgarar teknir tali við spilaborðið. Þá verður rætt um fyrirsjáanlega aukningu á ferðamannastraumi til Spánar þegar líður á árið og þá þjónustu sem eldri borgurum stendir til boða á Costa Blanca. Einnig fjallar Pálmi V. Jónsson yfirlæknir öldrunardeildar LSH um einsemd og hvernig hægt er að bregðast við henni á efri árum en Pálmi hefur oft verið gestur í þáttunum og flutt fróðlega pistla sem koma mörgum til góða.