Flug­freyja birtir launa­seðil sinn: „Skil ekki hvernig ég á að geta lækkað í launum“

„Ég skil ekki hvernig ég á að geta lækkað í launum, þegar við erum bara að fá launatrygginguna okkar án dagpeninga þá er þetta ekki neitt neitt. Er ekki viss um að fólk átti sig hversu lág grunnlaunin okkar eru.“

Þetta skrifar flugfreyja sem starfar í fullri vinnu hjá Icelandair inni á Facebook hópi flugfreyja. Hún hefur gefið Hringbraut góðfúslegt leyfi til að birta launaseðil hennar.

Kjaraviðræður flugfreyja við Icelandair hafa verið í deiglunni undanfarna daga. Í bréfi til starfsmanna félagsins sagði Bogi Nils Bogason, forstjóri þess að starfsfólkið væri helsta hindrunin í vegi þess vegna björgunar.

Á launaseðlinum má sjá að flugfreyjan er með 289.125 krónur í mánaðarlaun auk annarra greiðslna, líkt og handbókargjald og bílagreiðslur, samtals upp á 104.153 krónur.

Laun hennar fyrir skatt eru því alls 393.278 krónur en á seðlinum má sjá að 98.570 krónur eru dregnar af henni. Hún fær því samtals útborgað 294.708 krónur fyrir fulla vinnu sem flugfreyja hjá félaginu.

Samkvæmt nýjustu tíðindum af kjaraviðræðum Flugfreyjufélags Íslands og Icelandair felur nýjasta tilboð félagsins 40 prósenta launaskerðingu fyrir flugfreyjur. Tilboðið verður borið undir félagsmenn í kvöld eða á morgun.