Flug­dólgur fékk þungan dóm: Missti vinnuna á Ís­landi eftir at­vikið

Dóm­stóll í Manchester á Eng­landi hefur dæmt 51 árs karl­mann í sex mánaða fangelsi eftir at­vik um borð í flug­vél Ea­syjet á leið til Ís­lands í októ­ber síðast­liðnum.

Í frétt Bury Times kemur fram að maðurinn hafi með grófum hætti brotið gegn flug­þjóni um borð í vélinni.

Allt byrjaði þetta þegar maðurinn, sem er breskur ríkis­borgari og hefur starfað sem sjó­maður, pantaði sér þrjá bjóra hjá starfs­fólki vélarinnar. Hann brást hins vegar illa við þegar hann bað um meira á­fengi en fékk þau skila­boð að það væri ekki til. Er hann sagður hafa gripið karton af sígarettum sem hann faldi undir sætinu sínu.

Flug­þjónn um borð er sagður hafa varað manninn við að þessi hegðun væri ekki á­sættan­leg um borð í vélinni. Þegar flug­þjónninn sneri sér við greip far­þeginn í rassinn á honum og kreisti af al­efli. Flug­þjónninn sagði manninum að lög­regla yrði látin vita af málinu en þrátt fyrir það hélt hann á­reitinu á­fram. Sagði hann hátt, fyrir framan far­þega, börn þar á meðal, að flug­þjónninn væri sam­kyn­hneigður áður en hann öskraði: „Þú ert ekki breskur ef þú heldur að þetta sé kyn­ferðis­brot.“

Auk þess að sæta sex mánaða fangelsi var manninum gert að fara á skrá yfir dæmda kyn­ferðis­brota­menn þar sem hann verður næstu sjö árin.

Maðurinn var hand­tekinn af lög­reglunni hér á landi þegar vél Ea­syJet lenti. Hann var svo sendur aftur til Bret­lands með næsta flugi þar sem bresk lög­reglu­yfir­völd tóku á móti honum. Við yfir­heyrslur hjá lög­reglu er hann sagður hafa neitað því að hafa brotið kyn­ferðis­lega á flug­þjóninum en viður­kenndi að hafa sýnt honum dóna­skap.

Maðurinn, sem er frá Grims­by, er sagður hafa misst vinnuna sem sjó­maður hér á landi eftir hand­tökuna. Verjandi hans sagði að hann hefði þjáðst af þung­lyndi og á­ráttu- og þrá­hyggju­röskun. Dómari taldi það ekki þó ekki út­skýra gjörðir hans og benti á að hann hefði hlotið 30 refsi­dóma í gegnum tíðina – oft á tíðum vegna mála þar sem hann var undir á­hrifum á­fengis.

Þetta til­tekna mál um borð í vél Ea­syJet hafi verið al­var­legt enda gerst um borð í flug­vél fyrir framan börn og aðra far­þega. Dómari hafnaði kröfu þess efnis að maðurinn fengi ekki að stíga framar um borð í vél Ea­syjet. Sagði dómari að flug­fé­lagið gæti sjálft gripið til ráð­stafana án að­komu dóm­stóla til að halda honum frá vélum fé­lagsins um ó­fyrir­séða fram­tíð.