Flosi fengið nóg af vælukjóum: „Ég verð bara að tala hreint út: Þetta eru aumingjar“

Flosi Þorgeirsson, sagnfræðingur og gítarleikari hljómsveitarinnar HAM, gefur lítið fyrir þá sem vilja veg einkabílsins sem mestan í Reykjavík.

Flosi skrifaði áhugaverða færslu á Facebook í gærkvöldi sem vakið hefur talsverða athygli en pistilinn skrifaði hann eftir að hafa gengið um miðborgina eftir slæmt mígreniskast.

„Mígrenið hefur haft hægt um sig en hóf tangarsókn í morgun. Það er góð leið hjá því að ráðast að mér meðan ég er enn sofandi. Þá eru öll plön fokin út í veður og vind og ekkert í stöðunni en að gleypa töflur og leggjast á ný. Öll hreyfing gerir allt verra. Því meiri hjartsláttur, því meiri er sársaukinn,“ segir Flosi sem kveðst hafa vaknað því bæði svangur og þyrstur með tóman ísskáp.

„Eiginlega allir búnir að loka nema auðvitað sýrlensku meistararnir á Mandí sem aldrei bregðast. Það var sérstakt að ganga um miðbæinn í kringum miðnætti á þriðjudegi. Ég ólst hér upp og vanalega var þessi borg alltaf steindauð fyrir utan föstudag og laugardag þegar fólk kom saman dauðadrukkið í miðbænum til að slást, öskra og æla. Það var ekkert annað,“ segir Flosi sem segir stöðuna hafa gjörbreyst.

„Núna ratar Reykjavík oft inn á lista yfir fallegustu og áhugaverðustu borgir Evrópu. Fólk er hvatt til að njóta hennar við heimsókn hingað. Áður fyrr var ferðamönnum ráðlagt að stoppa hér ekki, enda væri ekkert að sjá eða gera. Þessi borg er hreinlega skemmtileg núna og lífleg,“ segir hann og nefnir dæmi máli sínu til stuðnings.

„Maður gengur um Laugaveginn án þess að drukkna í bensínstybbu eða eiga á hættu að í mann sé hent logandi sígarettum og út úr einhverjum bíl snarist 3 Garðbæingar til að lemja mann. Svona var þessi fáránlega borg. Hún er það sem betur fer ekki lengur. Fólk sat úti víðs vegar enda gott veður. Góð stemning í miðbænum,“ segir hann.

Flosi er svo með skilaboð til þeirra sem eru sífellt að væla um að hér sé allt ómögulegt.

„Samt eru margir sem væla og grenja og halda því fram að hér sé alltaf slydda og rok. Því eigi vegur einkabílsins að vera sem mestur og engu breyta í miðbænum. Ég verð bara að tala hreint út: Þetta eru aumingjar. Svokölluð snjókorn sem allt hræðast og flest hata. Þetta geta varla verið afkomendur víkinga? Vælandi sífellt yfir veðrinu? Þau vilja kannski fá gömlu tímana aftur? Þegar allir voru að keppast um að æla, öskra og slást? Frekar en að njóta lífsins í rólegheitum og friði. Undarlegt.“