Flokkssukk í stjórnkerfinu

Ólafur Arnarson pistlahöfundur á Fréttablaðinu og Hringbraut baunar á Sjálfstæðisflokkinn í Dagfarapistli sínum á Hringbraut á laugardag og segir flokkinn sukka með bitlinga fyrir fallna þingmenn. Hann furðar sig á því að Bjarni Benediktsson skuli hafa sett ólöglærðan mann úr þriðja sæti Kraganum í Dómsmálaráðuneytið og gengið fram hjá löglærðum þingmönnum og oddvitum í tveimur kjördæmum. Ólafur segir líklegt að framundan séu erfiðir tímar sem geti leitt til þess að ríkisstjórnin fari frá og því sé um að gera fyrir Sjálfstæðisflokkinn að nýta völd sína á meðan hann getur.

Ólafur er fyrrverandi framkvæmdastjóri þingflokks sjálfstæðismanna og aðstoðarmaður menntamálaráðherra og þekkir væntanlega vel til innviða síns gamla flokks og vinnubragða í stjórnkerfinu. Hann hendir grín að því að nafni Dómsmálaráðuneytisins hafi verið breytt í Innanríkisráðuneyti vegna þess að ráðherrann sé ekki lögfræðingur. Þá gefur hann í skyn að kunnáttuleysi Jóns Gunnarssonar í málaflokknum sem hann stýrir sé svo mikið að hann hafi verið tilneyddur að ráða reynslubolta úr lögfræðingastétt sér til aðstoðar. Annar þeirra sé raunar Brynjar Níelsson, sem féll af þingi í haust, og honum láti illa að vera í skugga annarra. Hann segir það athyglisvert að þegar forgangsverkefni í dómsmálum, samkvæmt stjórnarsáttmála, sé barátta gegn kynbundnu ofbeldi og mismunum, skuli Sjálfstæðisflokkurinn setja þrjá karla á sjötugsaldri í að leiða verkefnið.

Ólafur segir Ásdísi Höllu Bragadóttur, „innvígða og innmúraða“ í innsta hring Sjálfstæðisflokksins hafa verið fengna til að „klastra“ saman ráðuneyti úr mismunandi verkefnum sem Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir hafi fengið í hendur. Ásdís Halla sé úr innstu valdaklíku flokksins og fróðlegt verði að sjá hvaða „innmúraði“ flokksgæðingur verði ráðinn ráðuneytisstjóri hins nýja ráðuneytis. Hér má sjá pistilinn í heild.