Reynir Traustason ritstjóri Mannlífs segir að flestir fordæmi slíka háttsemi eins og hann og fjölmiðlinn sem hann ritstýrir urðu fyrir á dögunum, en vandinn sé að það eru einhverjir þarna sem segja ,,hann hafa átt þetta skilið“.
Eins og fram hefur komið var brotist inn í bíl Reynis og stolið þaðan lyklum meðal annars af ritstjórnarskrifstofu Mannlífs við Ármúla, farið þar og skemmt gögn.
Reynir segist finna að lögreglan hafi mikinn metnað í að upplýsa þetta mál, og að það sé góð tilfinning, því auðvitað sé það mjög alvarlegt mál fyrir frelsi fjölmiðla í landinu að slíkt viðgangist.
Reynir segist einnig vera með sína eigin rannsókn á málinu og að hann sé mjög nálægt því að vita hvað gerðist og hver braust inn.
Rætt verður við Reyni Traustason á Fréttavaktinni á Hringbraut kl. 18:30 í kvöld.