Flest stærstu fyrirtækin hafna krónu

Níu af 25 stærstu fyrirtækjum landsins nota íslenska krónu sem uppgjörsmynt. Hin nota evru eða dal að því er fram kemur í samantekt Vísbendingar.

Í umfjöllun miðilsins segir að lengi hafi verið vitað að flest íslensk sjávarútvegsfyrirtæki noti evruna í sínum ársreikningum og að álfyrirtækin noti Bandaríkjadal: \"Það sama gildir um nokkur orkufyrirtæki,\" segir í Vísbendingu og er þar ennfremur bent á að þessi fyrirtæki \"velja stöðugleika og lága vexti, en almenningur á ekki þetta val.\"

Þá kemur fram í þessari samantekt Vísbendingar að þau fyrirtæki sem gera upp í erlendri mynt sæki almennt ekki í norska krónu eða Kanadadal sem eru gjaldmiðlar sem nefndir hafa verið sem álitlegir kostir fyrir Íslendinga, enda þótt raunar viðskipti Íslendinga við þau lönd, einkum og sér í lagi Kanada, séu hverfandi.

Bent er á í Vísbendingu að af þeim 276 fyrirtækjum sem mega gera upp í erlendri mynt noti flest evruna, eða 125, en þar á eftir komi 113 fyrirtæki sem noti Bandaríkjadal.