Flest bendir til að nýr meirihluti sé klár

Mikið þarf að fara úrskeiðis til að fjögurra flokka meirihluti verði ekki niðurstaðan í Reykjavík. Samfylking, Framsókn, Píratar og Viðreisn munu mynda hann með 13 borgarfulltrúa á bak við sig. Ætla má að formlegar viðræður hefjist á næstu dögum en verið er að vinna að þessari niðurstöðu að tjaldabaki.

Oddvitar sumra flokka í borgarstjórn hafa farið mikinn í fjölmiðlum og komið fram í ýmsum viðtölum og haft lítið markvert að segja. Sumum finnst greinilega skemmtilegt að baða sig upp úr athygli fjölmiðla og aðrir eru að auki að reyna að planta einhverjum viðhorfum sem hafa ekkert að segja varðandi raunverulega meirihlutamyndun.

Hildur Björnsdóttir, sem leiddi lista Sjálfstæðisflokksins til lökustu niðurstöðu sögunnar og var sjálf strikuð úr af nærri 300 flokksmönnum, hefur reynt að koma því inn hjá fjölmiðlum að flokkur hennar eigi raunverulega möguleika á að komast í meirihlutasamstarf við aðra flokka í borginni. Þetta er ekki rétt. Hér verður ekki fullyrt um það hvort Hildur er að reyna að blekkja eða hvort hún er svona illa læs á umhverfi sitt.

Sjálfstæðisflokkurinn er ekki að fara í meirihlutasamstarf við aðra flokka í borginni. Fyrir liggur að Píratar og Sósíalistaflokkur Íslands hafa ítrekað lýst því yfir að þeir vilji alls ekki vinna með Sjálfstæðisflokknum. Þá hafa Vinstri græn dregið sig í hlé frá stjórnmálastarfi í borginni og ætla að meta stöðu sína, sleikja sárin og reyna að komast að því hvers vegna þeim var hafnað í Reykjavík – og reyndar algerlega hafnað í flestum helstu byggðarlögum landsins, eins og t.d.í Kópavogi, Hafnarfirði, Garðabæ og Mosfellsbæ. VG er því ekki að fara að mynda neinn meirihluta í Reykjavík.

Samfylkingin er höfuðandstæðingur Sjálfstæðisflokksins í borginni og fer að sjálfsögðu ekki í samstarf við flokkinn. Þá er vitað að innan Viðreisnar er enginn áhugi á samstarfi við Sjálfstæðisflokkinn í Reykjavík en án Viðreisnar gæti Sjálfstæðisflokkurinn ekki myndað meirihluta með Framsókn og jafnvel Flokki fólksins því að ekki næðist meirihluti þannig.

Skiljanlegt er að enginn hafi áhuga á samstarfi við Sjálfstæðisflokkinn sem er klofinn eftir endilöngu í borginni í hópa stuðningsmanna Guðlaugs Þórs annars vegar og Áslaugar Örnu hins vegar. Aðrir flokkar telja sig ekki geta treyst klofnum flokki í samstarfi.

Örlög Sjálfstæðisflokksins í borginni verða því að halda áfram að ólmast í stjórnarandstöðu næstu fjögur árin. Það eru dapurleg örlög flokks sem nærist á völdum að sitja yfirgefinn og valdalaus í stjórnarandstöðu enn eitt kjörtímabilið eftir glæsilega og samfellda valdatíð á síðustu öld. Sá tími er löngu liðinn.

Hildar Björnsdóttur bíður óskemmtilegt hlutskipti næstu fjögur árin. Hún hefur þegar komist á spjöld sögunnar fyrir að hafa leitt Sjálfstæðisflokkinn til verstu niðurstöðu allra tíma í borginni, 24,5 prósent fylgi, og sló þar með metið frá árinu 2014 sem var 25,7 prósent. Trúlega hefur þessi metnaðarfulla unga kona haft eitthvað annað í huga. En hún er ekki á leiðinni í meirihluta í Reykjavík og hún er ekki á leiðinni að verða borgarstjóri.

- Ólafur Arnarson