Fjöl­skylda John Snorra sendir frá sér yfir­lýsingu og þakkar hlý­huginn og stuðninginn

Fjöl­skylda fjall­göngu­mannsins John Snorra hefur sent frá sér yfir­lýsingu þar sem hún segir á­kveðinni ó­vissu hafa verið eytt með fundi þess sem talið er vera lík fjall­göngu­mannsins skammt frá toppi K-2.

„Nú hefur á­kveðinni ó­vissu verið eytt um af­drif Johns Snorra, Mu­hammad Ali Sadpara og Juan Pablo Mohr á K2 þann 5. febrúar sl., þar sem leitin af þeim hefur nú borið árangur,“ skrifar fjöl­skyldan í til­kynningu.

Fjöl­skyldan segir al­farið á hendi pakistanskra yfir­valda að á­kveða hvort reynt verður að ná líkömum þeirra niður af fjallinu, að­stæður á K2 séu gríðar­lega erfiðar.

„Sam­kvæmt upp­lýsingum frá Elia Saika­ly, sem er á K2, að þá er stað­setning John og Ali fyrir ofan hinn svo­kallaða flösku­háls á K2 á meðan stað­setning Juan er mun nærri búðum 4. Miðað við að­stæður eru sterkar vís­bendingar um að þeir hafi verið á leið niður af toppi fjallsins þegar þeir létust,“ segir fjöl­skyldan.

„Fjöl­skylda Johns vill þakka fyrir þann hlý­hug, stuðning og um­hyggju sem okkur hefur verið sýnd undan­farna mánuði og við viljum í­treka inni­legar þakkir okkar til allra sem hafa tekið þátt í leitinni að þeim John Snorra, Ali og J Pablo.“, segir Lína Móey, eigin­kona John Snorra.

Til­kynningin í heild sinni:

Nú hefur á­kveðinni ó­vissu verið eytt um af­drif Johns Snorra, Mu­hammad Ali Sadpara og Juan Pablo Mohr á K2 þann 5. febrúar sl., þar sem leitin af þeim hefur nú borið árangur.

Það er al­farið á hendi pakistanskra yfir­valda að á­kveða hvort reynt verður að ná líkömum þeirra niður af fjallinu, en að­stæður á K2 eru mjög erfiðar. Það er mikil­vægt að öryggi þeirra aðila sem tækju þátt í slíkum að­gerðum verði tryggt ef tekin verður á­kvörðun um að flytja þá niður í grunn­búðir.

Sam­kvæmt upp­lýsingum frá Elia Saika­ly, sem er á K2, að þá er stað­setning John og Ali fyrir ofan hinn svo­kallaða flösku­háls á K2 á meðan stað­setning Juan er mun nærri búðum 4. Miðað við að­stæður eru sterkar vís­bendingar um að þeir hafi verið á leið niður af toppi fjallsins þegar þeir létust.

Per­sónu­legir munir, mynda­vélar og annar tækja­búnaður sem þeir höfðu með­ferðis mun lík­lega varpa betra ljósi á það sem gerðist þennan af­drifa­ríka dag og m.a. svara þeirri spurningu hvort þeir hafi náð toppnum á K2. Stjórn þeirrar rann­sóknar verður einnig á hendi pakistanskra yfir­valda og munu allar upp­lýsingar um niður­stöður koma frá þeim.

„Fjöl­skylda Johns vill þakka fyrir þann hlý­hug, stuðning og um­hyggju sem okkur hefur verið sýnd undan­farna mánuði og við viljum í­treka inni­legar þakkir okkar til allra sem hafa tekið þátt í leitinni að þeim John Snorra, Ali og J Pablo.“, segir Lína Móey, eigin­kona John Snorra.