Fjölmenning í rótarý

Laugardaginn 27. febrúar munu flestir Rótarýklúbbar landsins fjalla um fjölmenningu á Íslandi. Athyglisverðir fyrirlestrar verða haldnir um land allt ásamt tónlistaratriðum og kynningu á fjölmenningu í matargerð sem nokkrir klúbbanna munu standa fyrir.

Þessi fjölmenningardagur er aðeins hluti af fjölbreyttri starfsemi Rótarýklúbbanna á Íslandi. Í hverri viku hittast um þúsund manns á rótarýfundum um land allt. Þar við borð sitja fulltrúar allra stétta og starfsgreina, iðngreina, listgreina, atvinnuvega og opinberra fyrirtækja á öllum aldri og af báðum kynjum. Hugmyndin bak við Rótarý er þannig að með því að setja sig inn í heim annarra, þá aukist skilningur og samstarf, öllum til hagsbóta.

Áherslan á fjölmenningu og kynningu á henni er Rótarýhreyfingunni í blóð borin.

Í Rótarý er um allan heim fólk af öllum þjóðernum, kynþáttum og úr öllum trúfélögum. Á Íslandi eru í dag um 25 þúsund aðfluttir útlendingar sem krydda okkar þjóðfélag með sinni menningu og starfa í öllum atvinnuvegum þjóðarinnar. Í síðustu viku var Denis Grbic kosinn matreiðslumaður ársins. Hann kom sem flóttamaður til landsins ungur að árum. Við eigum að taka vel á móti flóttafólki og sýna þeim virðingu. Okkar litla þjóð þarfnast fleiri landsmanna.

Um 1200 manns eru í 31 Rótarýklúbbi á Íslandi í dag. Félagsgjaldið rennur að mestu leyti í góðgerðarverkefni hérlendis og erlendis. Klúbbarnir styðja við ungmennastarf og nemendaskipti milli landa á hverju ári. Einnig er stutt við landgræðslu, Unicef, menningarstarf og staðið fyrir ræðunámskeiðum fyrir ungmenni víða á landinu svo nokkur dæmi séu nefnd.

Um 1,2 milljónir manna og kvenna eru í hreyfingunni í heiminum. Rótarý lætur um 100 milljónir dollara (um 15 milljarða króna) renna til mannúðarmála um allan heim á hverju ári. Þannig er Rótarýhreyfingin ein öflugasta góðgerðarhreyfingin í heiminum í dag. Þekktasti rótarýfélaginn er Bill Gates sem hefur ásamt konu sinni Melindu látið um 350 milljónir dollara renna til átaks Rótarý í baráttunni við lömunarveikina í heiminum.

Rótarýfundirnir eru vettvangur skoðanaskipta og fræðslu en á hverjum fundi er flutt erindi sem fjalla um flest svið íslensks samfélags…fjölmenningu, listir, atvinnugreinar, skólamál, frumkvöðlastarf, fornbókmenntir, ræðulist, raddbeitingu og tónlist svo eitthvað sé nefnt. Rótarýfundir eru tækifæri til símenntunar í hverri viku. Rótarýfélagar byggja þannig upp tengslanet sem er eitt mikilvægasta tækið til eflingar á skilningi, vinsemd og virðingu í dag.

Þannig snýst Rótarý um það að hittast, fræðast og um leið að láta gott af sér leiða.

Nánari upplýsingar um Rótarýhreyfinguna er að vinna á www.rotary.is, einnig á facebook og twitter.