Fjöldi frumsýninga á Hringbraut um páskana

Áhorfendur Hringbrautar um allt land verða ekki sviknir af fjölbreyttri páskadagskrá sjónvarpsstöðvarinnar, en fjöldi frumsýndra þátta er í boði næstu daga sem ættu að auðvelda fólki inniveruna.

Meðal helstu þáttanna má nefna afar vandaða upptöku af glæsilegum tónleikum Más Gunnarssonar í Hljómahöllinni í Reykjanesbæ sem er á dagskrá á annan í páskum, ferðaþáttinn Kátt er á Kili á Páskadag þar sem farið er í ægifögru vetrarveðri yfir endilangan Langjökul og áð á Hveravöllum á Kili, en sama dag hefjast sýningar á viðtalsþættinum Fyrirmyndum í umsjá Lindu Blöndal þar sem hún ræðir við fólk sem lagt hefur sérstaklega mikið til íslensks samfélags.

Í þættinum Sæl um sjötugt ræðir Sigurður K. Kolbeinsson við þjóðþekkta Íslendinga sem eru að nálgast efri árin, en þátturinn er sýndur á föstudaginn langa – og þá verður ekki leiðinlegt að hlamma sér í sófann og njóta ferðaþáttar Ólafs Más Björnssonar þar sem íslenskir ævintýramenn fara um á hjólum í fjöllunum í Colarado og Utah í Bandaríkjunum, en sá þáttur er á dagskrá á annan í páskum.

Loks er að nefna Sögustund þeirra Lindu Blöndal og Sigmundar Ernis þar sem þau rifja upp aldarafmæli kvikmyndarinnar Saga Borgarættarinnar með aðstoð þeirra Erlends Sveinssonar kvikmyndagerðarmanns og Jóns Yngva Jóhannssonar bókmenntafræðings, en tilurð myndarinnar á sér sögu sem er engu öðru lík í kvikmyndasögunni. Sögustund er frumsýnd á laugardag.

Þá er ónefndur fjöldi annarra áhugaverðra þátta, svo sem síðasta þáttarins í gamanröðinni Saman í sóttkví á annan í páskum, úrvalsbrot úr fréttaþættinum 21, upprifjun Stuðmanna á 50 ára sögu sinni og Jóns Gnarr og Óttars Proppé á 10 ára sögu Besta flokksins – og gönguþátta Sigmundar Ernis á Alpana og Dólómítana sem verða endursýndir um páskana.