Fjarvinnureglugerðin aðeins fyrir þá sem hafa meira en milljón á mánuði

Reglugerð um fjarvinnu útlendinga hér á landi nær aðeins til þeirra sem eru með erlendar tekjur sem sam­svara að minnsta kosti einni milljón króna á mán­uði. Ef maki við­kom­andi kemur með til landsins þá þarf hann að minnsta kosti að vera með 1,3 millj­ónir króna á mán­uði.

Ferðamála-, iðnaðar, og nýsköpunarráðherra, dómsmálaráðherra og fjármála- og efnahagsráðherra undirrituðu reglugerðina í vikunni sem gerir erlendum ríkisborgurum sem eru utan EES kleift að dvelja á Íslandi í allt að sex mánuði og stunda vinnu sína hjá erlendum fyrirtækjum í fjarvinnu. Fram kom í tilkynningu frá ráðuneytinu að með breytingunni verði þeim ríkisborgurum, sem eru undanþegnir áritunarskyldu, heimilt að sækja um langtímavegabréfsáritun á Íslandi fyrir starfsmenn í fjarvinnu og fjölskyldur þeirra án þess að þurfa að flytja lögheimili til landsins eða fá kennitölur. Athygli vekur að í tilkynningu ráðuneytisins er ekki tekið fram hversu miklar tekjurnar þurfa að vera.

Í tilkynningunni segir að kjölfar COVID-19 faraldursins hafi fjöldamörg fyrirtæki á heimsvísu opnað á fjarvinnu sem áður studdu ekki við það.

„Til að byggja upp útflutningsgreinar byggðar á hugviti þurfum við að búa til umhverfi, suðupott fólks með hugmyndir og hæfni sem kynnist, lærir af hvert öðru, og býr til tækifæri framtíðarinnar. Með því að opna nú fyrir og auðvelda starfsfólki að vinna frá Íslandi, bætum við þekkingu og tengingum inn í íslenska umhverfið,“ sagði Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra.

Að frumkvæði hennar hefur undanfarna mánuði verið unnið að því, í samvinnu við dómsmálaráðuneytið, fjármála- og efnahagsráðuneytið og Skattinn ofl., að útfæra heimild fyrir einstaklinga sem eru í föstu ráðningarsambandi við erlend fyrirtæki að dvelja og starfa hér á landi í sex mánuði. Fram til þessa hefur aðeins verið hægt að dvelja hér á landi í 90 daga við slíkar aðstæður. Til að fá heimild fyrir lengri dvöl þarf viðkomandi að sýna fram á ráðningarsamband, tekjur og sjúkratryggingar. Áfram verður unnið að því að skoða framkvæmdina til að hægt verði að bjóða upp á dvöl til enn lengri tíma. Samstarf og samráð um það mun hefjast sem fyrst um það hvernig skattamál og dvalarheimildir yrðu útfærðar.