Fimm­tán ára piltur bauð fé­lögum sínum á rúntinn í nótt

26. maí 2020
11:06
Fréttir & pistlar

Lög­reglan á Suður­nesjum stöðvaði í nótt 15 ára öku­mann sem hafði boðið tveimur fé­lögum sínum á rúntinn. Rætt var við for­eldra drengjanna og málið til­kynnt til barna­verndar­nefndar.

Þetta kemur fram í til­kynningu frá Lög­reglunni ná Suður­nesjum.

Þar segir enn fremur að all­margir öku­menn hafi verið staðnir að hrað­akstri í um­dæminu á síðustu dögum. Sá sem hraðast ók mældist á 139 kíló­metra hraða þar sem há­marks­hraði er 90 kíló­metra á klukku­stund. Hann var jafn­framt grunaður um ölvunar­akstur og var því hand­tekinn og færður á lög­reglu­stöð.

Höfð voru af­skipti af níu öku­mönnum sem óku á negldum dekkjum og voru tveir þeirra án öku­réttinda. Þrír óku með filmur í fremri hliðar­rúðum bif­reiða sinna og þurfa þeir að færa þær til skoðunar.

Loks voru höfð af­skipti af öku­manni sem var með tvö börn í aftur­sæti bif­reiðar sinnar, annað í barna­bíl­stól en hvorugt þeirra í belti. Tveir öku­menn óku svo á ljósa­staura og var annar þeirra grunaður um ölvunar­akstur.