Fimm til viðbótar úr nærumhverfi Víðis smitaðir: „Þungbært að þetta sé staðan“

„Nú er ég á fjórða degi veikinda vegna Covid-19. Einkennin voru í fyrstu væg en í gær vorum við hjónin verulega slöpp. Dagurinn í dag er skárri. Til að hafa allt uppá borðum eins og ég hef sagt allan tímann ætla ég að deila með ykkur sögu okkar af ferlinu.“

Þetta segir Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn hjá almannavarnadeild ríkislögreglustjóra, á Facebook en líkt og áður hefur komið fram greindist Víðir með COVID-19 síðastliðinn miðvikudag. Eiginkona hans hafði þá greinst á mánudeginum og hafði Víðir verið í sóttkví frá þeim tíma.

Sjá einnig: Rögnvaldur um Víði: „Ekki góður dagur í gær“

„Frá því faraldurinn kom til landsins höfum við hjónin þrengt verulega þann hóp sem við höfum umgengist. Það gerðum við til þess að lágmarka áhættu á því að bera smit á milli. Þó gerðist það að við smituðumst og þegar það var staðfest var ljóst að fólk í okkar nánasta umhverfi var útsett fyrir veirunni,“ segir Víðir í færslunni en ekki hefur tekist að komast að því hvar eiginkona hans smitaðist.

Alls voru 12 manns, þar á meðal Víðir, sendir í sóttkví vegna smitsins en um var að ræða vinafólk og fjölskyldumeðlimi. Í dag er ljóst að fimm til viðbótar við Víði og eiginkonu hans hafi smitast en konan hans var talin mjög smitandi. Hann segir að vel hafi verið passað upp á fjarlægðatakmarkanir en ekki nógu vel hugað að snertiflötum og segir Víðir að smit annarra sýni hversu smitandi veiran er.

„Sjálfur hef ég verið manna duglegastur við að hvetja alla til að passa eigin sóttvarnir og því þungbært að þetta sé staðan. Við getum ekki annað en vonað að við öll, eins og allir þeir fjölmörgu sem eru að berjast við þennan óvætt komum heil út úr þessu.“