Fimm milljarðar í heilbrigðismál vegna Covid-19 og meira þarf

„Númer eitt tvö og þrjú núna er að ráða við faraldurinn. Það er í í raun og vera að tryggja að heilbrigðiskerfið okkar virki“. Svandís Svavarsdóttir segir í þættinum 21 á Hringbraut að verið sé að gera ráð fyrir því að fullfjármagna allar þær aðgerðir sem þarf að fara í í heilbrigðiskerfinu vegna veikindanna, allt frá greiningunni, heilsugæslunni, yfir á spítalana, heilbrigðisstofnana og fleira, eins og 1700 símann.

Nú sé það fjármagnað að hluta og gert ráð fyrir einum og hálfum milljarði í það. „En við þurfum meira fé. Það liggur alveg fyrir“, segir Svandís.

Hve mikið þurfi meira segir hún: „Núna sjáum við að við erum nú þegar komin með útgjöld sem nema hátt í öðru eins nú þegar og við vitum í raun og veru ekki hversu mikið við þurfum að reiða af hendi þegar þessu er lokið“

Í síðustu viku var tekin staðan og þá var búið að ráðstafa um tveimur og hálfum milljarði bæði í aðgerðir og í framkvæmdir vegna faraldursins. „Við getum ekki spáð öðru en því að það sé að minnsta kosti annað eins“, segir heilbrigðisráðherra.