Fimm konur lentu í ógeðfelldu atviki í náttúrulaug: Sáu dularfullan mann í fjarska taka myndir af þeim

Í Fréttablaðinu í kvöld var greint frá heldur ógeðfelldu atviki sem hópur ungmenna lenti í við náttúrlaug við Húsavík.

Fram kemur að konurnar í hópnum, sem voru fimm talsins, hafi verið að skipta um föt eftir baðferðina og þá tekið eftir ókunnugum manni sem var að taka myndir af þeim. „Það var maður þarna og við sáum að myndvélin hans snéri að okkur,“ er haft eftir einni konuni. Þá segir að í kjölfarið hafi maðurinn veifað til þeirra, en síðan flúið á brott.

Hópurinn hafði síðan haft uppi á manninum en þá var hann með konu sem hló af atvikinu. Þau báðu manninn um að eyða myndunum en segja hann hafa verið með dónaskap. Til að mynda á hann að hafa sagt að hann ætti rétt á því að taka myndir af „kynþokkafullum líkömum úti í náttúrunni“.

Síðan þegar hann hafi loks leyft þeim að sjá myndirnar hafi komið í ljós að þær voru fjölmargar, meira en hundrað taldi hópurinn. Fram kemur að á endanum hafi maðurinn eytt myndunum.

Hægt er að lesa talsvert nánar um málið á vef Fréttablaðsins.