Allir stjórnarflokkarnir tapa fylgi samkvæmt nýrri könnun. Vinstri græn hafa misst helming kjósenda sinna

Sjálfstæðisflokkurinn er kominn niður í 21,9 prósent fylgi samkvæmt nýrri könnun MMR og fengi fimmtán þingmenn kjörna og missti einn frá síðustu kosningum. Vinstri græn hafa tapað helmingi fylgis síns frá kosningunum 2017, fengju 8,3 prósent og sex menn kjörna í stað ellefu þingmanna. Framsókn tapaði einum manni frá kosningunum og fengi sjö þingmenn kjörna. Þannig næðu ríkisstjórnarflokkarnir 28 þingmönnum ef marka má þessa könnun en fengu 35 menn í síðustu kosningum. Fylgi ríkisstjórnarflokkanna er nú rétt um 40 prósent og stjórnin er kolfallin samkvæmt þessari könnun eins og reynar hefur verið mjög lengi. Til þess að ríkisstjórnin gæti haldið áfram þyrfti hún að taka fjórða flokkinn inn í stjórnina. Væntanlega yrði þar um Miðflokkinn að ræða þó varla geti það talist áhugaverður kostur fyrir núverandi stjórnarflokka.

Samfylkingin fengi 15,2 prósent fylgi, ellefu þingmenn og bætti við sig fjórum sætum. Píratar bættu við sig þremur þingsætum og fengju 13,5 prósent fylgi. Viðreisn bætti einnig við sig þremur þingsætum og næði sjö mönnum inn á þing. Miðflokkur bætti við sig einum manni frá kosningunum og fengi 11,6 prósent greiddra atkvæða. Vinstri græn eru komin niður í 8,3 prósent fylgi og hafa misst annan hvern kjósanda frá kosningunum 2017. VG næði nú sex þingmönnum en hafði ellefu. Samkvæmt því missir flokkurinn tvo menn í Reykjavík og einn í eftirtöldum kjördæmum: Suð-Vestur, Norð-Vestur og Norð-Austur.

Sósíalistaflokkur Gunnars Smára og Flokkur fólksins fengju ekki nægilegt fylgi til að fá menn kjörna á þing.

Ef niðurstöður kosninga yrðu í samræmi við könnun MMR bendir flest til þess að mynda þyrfti fjögurra flokka ríkisstjórn til annað hvort vinstri eða hægri.