Ferðamenn sitja uppi með að skulda heilan bíl – „Maður finnur til með fólkinu sem lendir í þessu“

Dæmi eru um að ferðamenn sitji uppi með að skulda heilan bíl eftir óveðrið í Möðrudal um liðna helgi. Morgunblaðið fjallar um þetta í dag og segir að allur gangur sé á því hvort bílaleigur eða leigutakar þurfi að bera það tjón sem verður á bílum eftir sandfok eins og var í Möðrudal um helgina.

„Þetta er náttúrlega bara skelfilegt bæði fyrir bílaleigurnar og ekki síður fyrir viðskiptavinina sem eru í einhverjum tilfellum að lenda í leiðindamálum þar sem þeir hreinlega skulda heilan bíl. Sumir af þessum bílum eru ekki viðgerðarhæfir,“ hefur Morgunblaðið eftir Benedikt Helgasyni, framkvæmdastjóra Go Campers á Íslandi.

Tekið er fram að nokkrar bílaleigur bjóði upp á sand- og öskufokstryggingar en ef viðskiptavinir eru ekki með þessar tryggingar bera þeir tjónið sjálfir.

„Þeir eru þá vonandi með einhvers konar baktryggingar í ferðatryggingum eða einhverju slíku í sínu heimalandi. Þetta er skelfilega leiðinlegt og maður finnur til með fólkinu sem lendir í þessu,“ segir Benedikt.

Í Morgunblaðinu er einnig rætt við Hendrik Berndsen, framkvæmdastjóra Hertz á Íslandi og formann bílaleigunefndar Samtaka ferðaþjónustunnar, sem furðar sig á því að Vegagerðin hafi ekki gripið til lokana fyrr. Vegagerðin þurfi að gera betur og ýjar að því að mögulega væri best að almannavarnir tækju yfir verkefnið.

Mynd/Friðrik Árnason