Fellir áfellisdóm yfir íslensku þjóðinni: „Það hlýtur að vera eitt­hvað að okkur sem þjóð“

Ole Anton Bieltvedt, Ole Anton Bieltvedt, kaup­sýslu­maður og stjórnmála­rýnir, skrifaði pistil sem birtist í Fréttablaðinu í dag og ber titilinn: „Það hlýtur að vera eitt­hvað að okkur sem þjóð“.

Í grein sinni fjallar Ole um hvalveiðar, en hann er ekki mikill aðdáandi þeirra, vægast sagt. Hann bendir á að Katrín Jakobsdóttir var yfirlýstur andstæðingur hvalveiða, en nú á 5. stjórnarári hennar eru hvalveiðar hafnar á ný.

Ole byrjar á að útskýra hvalveiðar:

„Ýmsir halda, að öll sjávardýr séu einföld dýr, allt einhverjir fiskar, líka hvalir. Þetta er auðvitað firra; hvalir eru háþróuð spendýr, í grundvallaratriðum sköpuð eins og við, mennirnir, og önnur landspendýr. Með háþróað skyn, greind og breitt tilfinningalíf.

Meiðsli, áverkar og limlestingar valda þeim kvölum, nákvæmlega eins og okkur, mönnum. Hvalir eru fílar úthafanna.

Veiðiskip eltir hval, sem reynir að forða sér. En, dýrin geta ekki kafað endalaust, og verða að koma upp til að draga andann. Sjaldnast er sléttur sjór. Oft rigning og slæmt skyggni. Hvalabyssan, 60-70 ára gamalt verkfæri, er ekki nákvæmt drápstól. Hvalurinn á ferð, og oftast sést aðeins á bak eða sporð örstutta stund.

Skyttan tekur í gikkinn og sprengjuskutullinn borar sig inn í síðu eða bak hvalsins og springur þar. Tætir hold og líffæri dýrsins, oft án þess að drepa strax. Klær skutuls spennast út og læsast í innyflum og holdi.

Í skýrslu um dráp á 50 langreyðum frá 2014 kemur fram, að 8 dýranna háðu dauðastríð í allt að 15 kvalarmínútur! Varð að skjóta þau með sprengjuskutli nr. 2 til að drepa þau endanlega. Skelfilegar aðfarir og ömurleg helganga!“

Þá beinir Ole sjónum sínum að Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og rannsóknum hans á loftslagsvánni í sambandi við hvalveiðar.

„Meðal annars leiða rannsóknirnar í ljós, að stórhveli, langreyður, taka til sín og geyma 33 tonn af CO2 í búknum, sem jafngildir kolefnis geymsluþoli um 1.500 trjáa.

Þegar dýrin deyja, sökkva þau niður á botn, þar sem hræið og kolefnið nýtast sem næringarefni inn í vistkerfi lífvera neðstu laga hafsins.

Eins leiða rannsóknirnar í ljós, að næringarríkur úrgangur hvala er aðalfæða plöntusvifsins í hafinu, sem aftur framleiðir um helming alls súrefnis í lofthjúpnum.

Er framlag plöntusvifsins jafngildi fjögurra Amazon-regnskóga, hvað varðar kolefnisbindingu og loftslagsvernd. Amazon-skógarnir eru þó oft kallaðir lungu jarðarinnar.“

Í kjölfarið bendir hann á ótrúlega staðreynd sem rannsóknin leyddi í ljós, en það er að hvert stórhveli hafi verðgildi upp á að minnsta kosti 2 milljónir Bandaríkjadala, eða um 260 milljónir króna, en bara lifandi.

„Ef Hvalur hf. veiðir 150 langreyðar í sumar, jafngildir það þá því, að þessar langreyðar lifandi hefðu verðgildi upp á 42 milljarða króna, sem sennilega er hundraðfalt verðgildi afurðanna, ef þær seljast þá.

Og, til að bæta tjónið á loftslagsgæðum, sem drápið á 150 langreyðum myndi valda, þyrfti að rækta upp skóg 225 þúsund trjáa.“

Hægt er að lesa grein Ole Antons Bieltvedts í heild sinni hér.