Fársjúkur Trump skaðar hagsmuni Íslands að ástæðulausu

13. mars 2020
14:51
Fréttir & pistlar

Með því að banna Evrópubúum að heimsækja Bandaríkin næstu 30 daga sýndi Trump forseti að hann veldur alls ekki hlutverki sínu og er beinlínis hættulegur umheiminum. Hann hefur á ferli sínum verið umdeildur og illa þokkaður en með þessari aðgerð gekk hann lengra en áður. Þessi ákvörðun hans mun trúlega verða það eina sem haldið verður til haga þegar brogaður ferill hans verður gerður upp af sagnfræðingum framtíðarinnar.

Trump heldur því fram að hann sér með þessu að vernda heilsufar Bandaríkjamanna. Hann reyndi að tala áhrif veirunnar niður og gerði lítið úr aðsteðjandi vá. Orð hans viktuðu ekkert og veiran stakk sér niður í Bandaríkjunum með enn meiri þunga vegna þess að ekki var brugðist við í tíma út af tregðu forsetans. Vegna seinagangs hefur hann svo verið gagnrýndur harkalega og var kominn í vandræðalega varnarstöðu sem hentaði honum alls ekki við upphaf kosningabaráttu vegna forsetakosninganna í nóvember nk.

Ófagleg vinnubrögð forsetans má rekja til eigin hagsmuna hans. Trump er að reyna að slá ryki í augu kjósenda með þessari aðgerð. Hann bendir fingri til Evrópu og reynir að kenna okkur um ástandið í Bandaríkjunum vegna veirunnar. Fyrir því eru engin rök. Forsetinn reynir að leika einhverja pólitíska leiki. Það mun ekki takast að þessu sinni. Flestir sjá í gegnum loddaraskapinn og gera sér ljóst að útspil Trumps er til heimabrúks í kosningabaráttunni.

Vonandi verður þetta ábyrgðarlausa upphlaup Trumps til að tryggja að hann verði ekki endurkjörinn í haust. Ekki einungis Bandaríkin þurfa á því að halda að losna við þessan hættulega mann - heldur öll heimsbyggðin.

Okkur hér á Íslandi svíður að dragast inn í kosningaslag í Bandaríkjunum að ósekju. Valdabrölt Trumps bitnar illa á okkur næstu 30 daganna. Honum gæti ekki verið meira sama!

Vandamál samtímans í veröldinni eru næg þó ekki séu unnin óhæfuverk af valdamönnum á hæsta stalli. Því hærra sem þeir eru settir, þeim mun hættulegri eru þeir. Næg eru dæmin úr sögunni: Napoleon, Hitler og Trump. Og nú langar Boris Johnson að bætast í þennan vafasama hóp.