Tilslakanir nauðsynlegar í náminu, segir rektor HÍ - 13 þúsund í fjarnámi.

7. apríl 2020
16:37
Fréttir & pistlar

Allir þrettán þúsund nemendur Háskóla Íslands eru í fjarnámi og segir Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands aðstæður núna óhjákvæmilega koma niður á gæðum námsins og lækka verði kröfur til nemenda.

Í samtali í þættinum 21 segir Jón Atli að aðstæður kalli á tilslakanir í námsmati.

„Það eru margir sem að eiga erfitt uppdráttar útaf ýmsum aðstæðum, það er sótt sem náttúrulega að fara hér um samfélagið og þetta er bara mjög erfið staða en við reynum hvað við getum að sinna öllum og hjálpa fólki að komast í gegnum þetta“, segir Jón Atli.

Fáir staðir eru opnir námsmönnum til að stunda fjarnámið, t.d. eru öll bókasöfn lokuð. Jón Atli tekur undir að ekki allir séu í aðstöðu til að sinna náminu heima en mjög mikið sé gert til að koma á móts við fólk eftir aðstæðum, t.d. með ýmsum tilslökunum, m.a. á skilafrestum verkefna eða með lengingu próftíma. Hann bendir á þessir erfiðleikar geti átt við starfsmenn og kennara líka sem hafi ekki allir aðstæður til að vinna heiman frá sér. Einnig sé aukið álag á öllum, fólk þarf að tileinka sér ný fjarkennsklukerfi um leið og verið er að tileinka sér krefjandi námsefni.

Haldið í gæðakröfurnar í breyttum heimi

Aðspurður hvort að þetta ástand bitni á gæðum námsins segir Jón Atli svo vera:

„Það gerir það vegna þess að við verðum nátturulega að gera okkur grein fyrir því að við erum ekki í þeim heimi sem við vorum í áður. Markmiðið hjá okkur var að klára misserið, reyna að halda eins mikið í gæðakröfurnar og við getum og ég myndi segja það hafi tekist en hins vegar höfum við þurft að veita tilslakanir og það auðvitað kemur að einhverju leyti á því sem við hefðum farið yfir, bara annað hefði ekki verið hægt“.

26 deildir eru innan Háskóla Íslands.

„Við skoðuðum hvert námskeið og hverja deild, síðan fóru kennararnir yfir sitt námsmat en í mörgum tilvikum var ekki hægt að fara yfir allt námsefnið eins og áður“ .

Góð viðbrögð nemenda

„En ég get sagt það að við erum að fá mjög góð viðbrögð frá nemendum varðandi þetta með námsmatið“

Jón Atli segir skólann hafa verið ágætlega búinn til að halda úti öllu námi utan skólans þar sem kennslusviðið innan hans sé sterkt og mikil þróunarvinna með rafræna kennsluhætti átt sér stað á undanförnum árum. Viðbragðsáætlun hafi verið tilbúin á einungis tveimur vikum sem nú er farið eftir, neyðarstjórnin hafi hist einu sinni á dag fyrsti tvær vikurnar og núna annan hvern dag.

Erfitt sé að sjá fyrir sér hvert brottfallið verður úr námi eins og staðan er í dag.

Fjarkennsla mun aldrei taka yfir

Um varanleg áhrif til framtíðar á þá námshætti sem nú hafa tekið við í fjarnámi telur Jón Atli einhver en líklega hverfandi þótt nýr hugbúnaður og lausnir muni án efa ryðja sér til rúms í kennslu og samskiptum en muni aldrei alfarið taka yfir námið.

„Þetta mun náttúrulega hafa áhrif á skólastarfið en það má aldrei gleyma því að háskólar eru samfélög og það er mjög mikilvægt að fólk geti komið og tekið þátt í gagnrýnni umræðu í skólastofu og þess háttar svo að fjarkennsla sem slík hún er ekki lausnin Framtíðin verður þannig að þetta mun hafa áhrif en Háskólinn verður ekki svona til langframa“.