Fara fram á gæslu­varð­hald vegna mann­drápsins á Ólafs­firði

Lög­reglan á Norður­landi eystra hefur farið fram á gæslu­varð­hald á þremur ein­stak­lingum sem taldir eru tengjast mann­drápinu á Ólafs­firði í nótt. Lög­regla telur sig hafa þá í haldi sem eru við­riðnir málið.

„Lög­reglan hefur mál til rann­sóknar er varðar manns­lát á Ólafs­firði síðast­liðna nótt. Gerð hefur verið krafa um gæslu­varð­hald yfir þremur aðilum er hafa stöðu sak­bornings í málinu en úr­skurður liggur ekki fyrir,“ segir í Face­book-færslu lög­reglunnar.

Rann­sókn málsins er í fullum gangi og miðar að því að upp­lýsa máls­at­vik. „Vett­vangs­rann­sókn er lokið og hefur verið farið fram á réttar­krufningu yfir hinum látna.“