Fallkandidatar á móti Hildi?

Talsverður órói greinist nú innan Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík vegna komandi borgarstjórnarkosninga en nú eru liðin 32 ár frá því flokkurinn vann frækinn sigur í síðustu borgarstjórnarkosningum Davíðs Oddssonar vorið 1990 en þá náði flokkurinn 60 prósenta fylgi og fékk tíu borgarfulltrúa af fimmtán. Síðan hefur hver fallkandidatinn á fætur öðrum leitt lista flokksins, að mestu án sýnilegs árangurs.

Í morgun bárust sjálfstæðismönnum svo vondar fréttir. Dagur B. Eggertsson borgarstjóri ætlar að halda áfram sem leiðtogi Samfylkingarinnar og sækist eftir því að gegna embætti borgarstjóra áfram. Hann hafði dregið að skýra frá áformum sínum og margir sjálfstæðismenn voru farnir að gæla við að hann snéri sér að öðru og þeir þyrftu ekki að kljást við borgarstjóra með þá yfirburðaþekkingu og reynslu af borgarmálum sem Dagur býr yfir.

Eyþór Arnalds, sem leiddi Sjálfstæðisflokkinn í síðustu borgarstjórnarkosningum, tilkynnti að hann vildi áfram leiða lista flokksins í vor. Skömmu síðar rifjaðist upp fyrir honum að lífið hefur upp á sitthvað fleira að bjóða en stjórnmál og nefndi börnin sín, fyrirtæki og fleira sem kom skyndilega í huga hans.

Reyndar hafði þá ung og glæsileg kona, Hildur Björnsdóttir, sem sat í öðru sæti á eftir Eyþóri síðast, tilkynnt framboð. Hún hefur verið Eyþóri ósammála um ýmis meginmál á borð við borgarlínu, flugvöllinn og Laugaveginn sem gamli kaupmaðurinn, Bolli Kristinsson, hefur birt níðauglýsingar um gagnvart meirihlutanum.

Hildur er í vinahópi Áslaugar Örnu Sigurbjörnsdóttur sem reyndi að fella Guðlaug Þór Þórðarson úr efsta sæti flokksins í Reykjavík síðastliðið vor. Án árangurs. Guðlaugur Þór hélt því titlinum „Herra Reykjavík“ innan flokksins í höfuðborginni. Guðlaugur Þór studdi Eyþór á sínum tíma. Nú þarf hann og „Hulduher“ hans að finna frambjóðanda í fyrsta sæti í komandi prófkjöri flokksins í Reykjavík sem verður í næsta mánuði. Úr vöndu er að ráða.

Hildur Björnsdóttir er frambærileg. Hún þjáist ekki af minnimáttarkennd, á rætur í Sjálfstæðisflokknum í Reykjavík en Sveinn Björnsson, skókaupmaður og forseti ÍSÍ, var afi hennar. Sveinn var varaborgarfulltrúi flokksins um tíma og áhrifamaður innan flokksins, í stuðningsmannaliði Gunnars Thoroddsen. Þeir sem kynntust Sveini muna eftir vönduðum og vænum manni. Einnig á hún djúpar rætur í Framsóknarflokknum. Afi hennar á Akureyri var Gísli Konráðsson, forstjóri Útgerðarfélags Akureyringa (sem er nú í eigu Samherja). Hann var lykilmaður í Framsóknarflokknum fyrir norðan og mikill áhrifamaður á Akureyri. 

Einnig hefur Hildur framsóknartengsl í gegnum eiginmann sinn, Jón Skaftason, en afi hans og nafni var einn nánasti samstarfsmaður og vinur Steingríms Hermannssonar.

Gárungarnir segja að verði Hildur Björnsdóttir leiðtogi Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík þurfi Framsóknarflokkurinn ekki að bjóða fram því að þeir hafi sína manneskju á réttum stað. Framsóknarflokkurinn hefur nú engan borgarfulltrúa í Reykjavík af þeim 23 sem kosið er um.

Sjálfstæðisflokkurinn í Reykjavík er hins vegar klofinn. Hinn armurinn þarf nú að finna vænan fulltrúa til að berjast um fyrsta sætið við hina galvösku og sjálfsöruggu, Hildi Björnsdóttur. Kostirnir virðast ekki vera margir. Enginn í núverandi hópi er líklegur - og heldur enginn af fyrri fulltrúum flokksins. Ekki Kjartan Magnússon. Ekki Gísli Marteinn og hvað þá Hanna Birna sem flúði land.

Hins vegar býr Sjálfstæðisflokkurinn að mörgum reyndum mönnum sem hafa ávallt mikinn metnað. Dæmi: Páll Magnússon sem sat á þingi fyrir flokkinn í fimm ár en var ýtt út af lista flokksins í Suðurkjördæmi, naut ekki traust flokkseigenda. Í hans stað kom Guðrún Hafsteinsdóttir sem fær heldur ekki ráðherrasæti. Elliði Vignisson fyrrverandi bæjarstjóri í Vestmannaeyjum er nú í Þorlákahöfn eftir að Eyjamenn höfnuðu honum og sendu hann upp á land. Báðir þessir Eyjamenn vilja líkast til hafa fast land undir fótum.

Einhverjir vanir sjálfstæðismenn sem verið hafa áberandi í viðskiptalífinu og fjölmiðlum standa nú á tímamótum. Ekki er lengur óskað eftir starfskröftum þeirra í atvinnulífinu. Kannski Sjálfstæðisflokkurinn sjái einhver not fyrir einhvern þeirra. Logi Bergmann, núverandi eiginmaður Svanhildar Valsdóttur, fyrrum, aðstoðarmanns fjármála-og skattamálaráðherra tilkynnti á dögunum að hann fengi fjölmargar hvatningar um að gefa kost á sér sem borgarstjóri í Reykjavík og hafnaði því þá.

Nú eru breyttir tímar.

- Ólafur Arnarson