Falleg eign til sölu í Vestmannaeyjum á 50% afslætti: Það er þó einn stór galli á henni

Á fasteignavef Vísis má finna áhugaverða fasteign í Vestmannaeyjum til sölu. Eignin sem um ræðir er 154 fermetrar og er ásett verð aðeins 11,9 milljónir króna. Þetta þykir ekki hátt fermetraverð miðað við það sem gengur og gerist á landinu og ekki síst þá staðreynd að eignin er falleg, vel hirt og í garðinum er til dæmis stærsta öspin í Vestmannaeyjum.

Í sölulýsingu kemur fram að eigendur hússins hafi lent í því að veggjatítla kom upp eftir að þeir keyptu húsið. Var veggjatítlan í sperrum og er enn.

„Eigendur hafa ekki búið í risinu, þar sem búið að að rífa klæðningar af sperrum. Veggjatítlan er aðeins komin í neðri hæð að hluta. Af framansögðu er eignin til sölu á 50% verði miðað við markaðsverð, og því er skoðunarskylda mikil og mikilvægt að væntanlegir kaupendur kynni sér allt það sem snýr að því hvernig eigi að bregðast við veggjatítlum,“ segir í sölulýsingu fasteignarinnar.

Húsið sem um ræðir var byggt árið 1906 og skiptist eignin í aðalhæð, kjallararými og ris.

Á vef Náttúrufræðistofnunar Íslands kemur fram að staðfestir fundarstaðir veggjatítlu séu í Reykjavík, Hafnarfirði, Akranesi, Siglufirði, Eskifirði, Fáskrúðsfirði og Heimaey.

Veggjatítlur alast upp inni í trjáviði og hér á landi eingöngu í byggingarviðum húsa. Bjöllur klekjast úr púpum inni í viðnum og naga sig strax út á yfirborðið. Við það myndast göt í viðnum sem eru þekkt ummerki veggjatítlunnar. Nái títlan að athafna sig til lengri tímar getur hún veikt burðarvirki húsa og þar með valdið alvarlegum skaða og miklu fjárhagslegu tjóni.

Hér má kynna sér eignina frekar

Hér má lesa nánar um veggjatítluna á vef Náttúrufræðistofnunar Íslands.