Fær tugi símtala á dag frá fólki sem vill „panta gistingu“ í Farsóttarhúsi

Gylfi Þór Þorsteinsson, forstöðumaður Farsóttahúsa Rauða krossins, segist reglulega fá símtöl frá fólki sem vill fá að panta gistingu í Farsóttahúsi en húsin eru aðeins ætluð þeim sem hafa greinst með kórónaveiruna og geta ekki verið í einangrun annars staðar. Í undantekningartilfellum getur fólk dvalið í húsinu meðan það er í sóttkví en þá aðeins ef þau geta ekki dvalið annars staðar.

Að sögn Gylfa er fólkið sem hringir helst að leita að gistingu fyrir ættingja og vini sem eru að koma erlendis frá en hann segir slíkt vera að aukast núna þegar jólin nálgast.

„Ef fólk er að koma til landsins fyrir jólin og getur ekki verið hjá vinum eða ættingjum í þessari biðsóttkví af einhverjum ástæðum, þá er bara að fara inn á vef Ferðamálastofu og finna þar góðan gististað í þessa fimm daga,“ segir Gylfi í samtali við RÚV um málið.

Hann segir þó að fólk átti sig oftast á því á endanum að ekki sé hægt að panta gistingu í húsinu þegar málið er útskýrt fyrir þeim en þó séu alltaf einhverjir sem sjá ekkert athugavert við það að ættingjar á leið til landsins fái að dvelja í húsinu.

Eins og staðan er í dag er aðeins eitt Farsóttahús opið á höfuðborgarsvæðinu, á Rauðarárstíg, auk þess sem húsunum á Akureyri og Egilstöðum hefur verið lokað tímabundið, samkvæmt frétt RÚV. Vonast var til að hægt yrði að loka þeim öllum fyrir jól en það sé ekki hægt að gera nú í ljósi stöðu faraldursins.