Eyþór var farinn að drekka of mikið: „Við áföll hefur maður tvo valkosti“

Eyþór Arnalds segist í viðtali við helgarblað Fréttablaðsins hafa farið í gegnum mikla sjálfskoðun eftir að hafa verið tekinn fyrir ölvunarakstur árið 2006, atvik sem fór hátt í fjölmiðlum.

„Við áföll hefur maður tvo valkosti, að vera fúll og jafnvel kenna öðrum um eða horfa inn á við og ákveða að gera eitthvað í sínum málum. Það var það sem ég gerði.

Ég held að það sé ekki nokkur spurning að ég var farinn að drekka of mikið og hraðinn var of mikill. Það er svo mikilvægt að fara ekki fram úr sjálfum sér og vera í tengslum við eðlilegan takt. Það á við drykkju, vinnu og metnað. Allir þessir hlutir geta farið illa með mann og ég held að ég hafi farið fram úr mér á öllum sviðum.“