Eyþór um mál 7 ára stúlkunnar í Grafarvogi: „Menn bregðast ekki lengur við“

Eyþór Arnalds, oddviti Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík, segir borgarkerfið ekki bregðast við ábendingum íbúa. Mannlífspurði borgarfulltrúa út í mál sjö ára stúlku sem reynt var að nema á brott í Grafarvogi nýverið.

Öryggismyndavélar hlutu kosningu í íbúakosningunni Betri Reykjavík árið 2018 og var úthlutað 33 milljónum til þess. Engar öryggismyndavélar eru komnar upp. Hefur málið setið óhreyft á borði Þorsteins Gunnarssonar, borgarritara, frá því í nóvember í fyrra.

„Þetta er því miður orðin lenska í borgarkerfinu, að svara ekki, að afgreiða ekki erindi og fyrirspurnir almennra borgar og að biðjast ekki afsökunar,“ sagði Eyþór um málið.

„En þetta þrennt þurfa menn að geta gert og að geta tekið af skarið. Sumir eru búnir að vera of lengi við völd og þykir óþarfi að svara íbúum. Menn bregðast ekki lengur við fyrirspurnum almennings. Það er vandinn í mörgum málaflokkum.“