Eyþór hrakinn frá – einnota leiðtogar í borginni og mikil örvænting

Sjálfstæðisflokkurinn lét gera leynilega skoðanakönnun sem sýndi enn fallandi fylgi í komandi borgarstjórnarkosningum og lítinn stuðning við Eyþór Arnalds, oddvita flokksins í borginni. Í kjölfarið hefur gripið um sig mikil örvænting hjá flokksforystunni og Eyþór hefur sjálfur fengið nóg, ákvað að gefast upp og gefur ekki kost á sér.

Um langt skeið hafa leiðtogar Sjálfstæðisflokksins í borgarstjórnarkosningum verið „einnota“. núna fer Eyþór frá eftir eitt kjörtímabil eins og Halldór Halldórsson þar á undan. Hanna Birna Kristjánsdóttir leiddi lista flokksins 2010 og varð undir í kosningunum. Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson leiddi flokkinn 2006 og náði þeim árangri að verða borgarstjóri í kjölfarið. Björn Bjarnson leiddi listann 2002 og fékk minnsta fylgi flokksins í borgarstjórnarkosningum sem þá hafði náðst, 40 prósent. Árið 1998 leiddi Árni Sigfússon og tapaði fyrir Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur. Árið 1994 átti Markús Örn Antonsson að leiða listann – en gafst upp og rann af hólmi 70 dögum fyrir kosningar þegar stefndi í sigur R-listans.

Hrakfallasaga Sjálfstæðisflokksins í borginni er því orðin löng og ekki sér fyrir endann á henni. Stöðugleikinn og sigurhefðin fór með Davíð Oddssyni þegar hann yfirgaf borgarmálin og varð forsætisráðherra í byrjun níunda áratugar síðustu aldar.

Nú stendur Sjálfstæðisflokkurinn uppi ráðalaus og leitar að leiðtoga í örvæntingu. Hildur Björnsdóttir hefur gefið kost á sér en fáir trúa því að hún geti náð árangri. Flokkurinn leitar nú logandi ljósi að einhverjum til að leiða lista flokksins í borgarstjórnarkosningunum eftir 5 mánuði.

- Ólafur Arnarson