Ey­þór: Brott­hvarf Ís­lendinganna hafði slæm á­hrif – Fylltist stolti í skipi Sam­herja

„Ís­lendingur í Wal­vis Bay sagði mér að margt hafi hafi breyst til hins verra eftir að fé­lög tengd Sam­herja lögðu niður út­gerð í landinu,“ segir Ey­þór Eð­vars­son, sem starfað hefur að sölu- og markaðs­málum, í að­sendri grein á vef Vísis.

Í pistlinum skrifar Ey­þór meðal annars um störf Sam­herja og tengdra fé­laga í Namibíu, en mjög var fjallað um málið og meintar mútu­greiðslur Sam­herja á liðnu ári.

Ey­þór tekur fram í pistlinum að hann hafi ekki verið til sjós hjá Sam­herja og þekki eig­endur fyrir­tækisins ekkert. Hann vann fyrir nokkrum árum hjá fyrir­tæki sem þróaði lausnir til bættrar orku­nýtingar fyrir stór­not­endur, bæði til sjós og lands, þar sem helstu við­skipta­vinir voru sjávar­út­vegs­fyrir­tæki.

Aldrei var við annað en jákvæðni

„Stærstur hluti vinnu minnar sneri að markaðs­málum sem kallaði á mikil ferða­lög um heiminn. Í þessu starfi hitti maður gjarnan fólk í fram­línu sjávar­út­vegs, bæði á fundum og eins á sjávar­út­vegs­sýningum. Sem Ís­lendingur getur maður borið höfuðið hátt á slíkum við­burðum enda erum við þekkt fyrir að um­gangast ríka auð­lind okkar af virðingu.“

Ey­þór segist ekki hafa verið búinn að fara víða þegar hann áttaði sig á um­fangi Sam­herja á al­þjóða­vett­vangi og góðu orð­spori fyrir­tækisins er­lendis. „Hvar sem ég kom var ég aldrei var við annað en já­kvæðni í garð þessa stærsta út­vegs­fyrir­tækis Ís­lands,“ segir hann.

Hann bætir við að fyrir nokkrum árum hafi hann farið í vinnu­ferð til Namibíu þar sem hann fékk sín fyrstu kynni af namibískum sjávar­út­vegi. Kom hann að rann­sóknar­vinnu á nokkrum skipum og meðal þeirra voru systur­skip sem lágu hlið við hlið.

Annað skipið var í eigu Nam­sov, út­gerðar­fé­lags sem upp­haf­lega var sett á lag­girnar á grund­velli sam­vinnu Namibíu og ríkja fyrrum Sovét­ríkjanna, og segir Ey­þór að hann hafi fengið hálf­gert á­fall við komuna um borð. Al­mennu við­haldi hafi verið mjög á­bóta­vant og að­búnaðurinn um borð vart fólki bjóðandi. Tækja­kostur hafi auk þess verið úr sér genginn og lítið verið endur­nýjuð.

Annað blasti við í hinu skipinu sem var í eigu fé­lags sem tengdist Sam­herja. „Ég man hvað ég fylltist miklu stolti er ég kom um borð. Allir gangar voru flísa- eða parket­lagðir, skipið var tandur­hreint hátt og lágt og vistar­verur skip­verja búnar fal­legum hús­gögnum. Saman­burðurinn var sér­stak­lega sláandi þegar komið var niður í vélar­rúmið sem var allt ný­málað og hreint. Að­staða vél­stjóranna var stór­glæsi­leg og búin allra nýjustu tækni.“

Margt breyst til hins verra

Ey­þór segir að þar­lendir sjó­menn hafi talað um að mjög eftir­sóknar­vert væri að starfa fyrir út­gerðir sem tengdust Sam­herja. „Menn upp­lifðu sig sem jafningja um borð, þar væri góður starfs­andi og að­staðan á skipunum væri til fyrir­myndar auk þess sem menn væru ráðnir upp á hlut. Há­marks­afli auk há­marks­gæða tryggja þar betri af­komu manna.“

Ey­þór segir að um 60-70 þúsund manns búi í út­vegs­bænum Wal­vis Bay og þar sé mikil fá­tækt og stétta­skipting.

„Þeir Ís­lendingar sem búa og starfa í Namibíu hafa góðan skilning á þeim á­hrifum sem að­koma Ís­lendinga að namibískri út­gerð hafði fyrir þar­lendan sjávar­út­veg. Ís­lendingur í Wal­vis Bay sagði mér að margt hafi breyst til hins verra eftir að fé­lög tengd Sam­herja lögðu niður út­gerð í landinu. Sjó­menn, sem áður hafi verið metnir að verð­leikum, þurfi nú að sætta sig að vinna við verri að­stæður fyrir lakari laun. Fé­lög tengd Sam­herja hafi dælt fé inn í namibískan sjávar­út­veg og við rekstur þessara fyrir­tækja hafi verið litið til fram­tíðar­upp­byggingar. Því hafi menn verið til­búnir að horfa fram­hjá tap­rekstri. Þá hafi Sam­herji komið með sína þekkingu og tækni inn í at­vinnu­greinina sem skilaði sér í væn­legum afla­tölum og bestu gæðum af­urða.“

Hverjir nutu góðs af þátttökunni?

Ey­þór segir að brott­hvarf Sam­herja frá Namibíu hafi ekki haft já­kvæð á­hrif á sjávar­út­veginn í landinu. Þannig hafi ný­legt upp­boð á afla­heimildum í hrossamakríl, sem áður var út­hlutað fé­lögum sem tengdust Sam­herja, mis­tekist hrapa­lega.

„Fé­lög tengd Sam­herja skildu eftir mikil verð­mæti í namibísku hag­kerfi og sköpuðu mikinn fjölda starfa meðan þau voru í rekstri. Þar í landi er nú rekið saka­mál þar sem nokkrir þar­lendir ríkis­borgarar eru sakaðir um að hafa með ó­lög­mætum hætti tekið við fjár­munum sem voru greiddir fyrir nýtingu afla­heimilda. Það er eðli­legast að spyrja að leiks­lokum þegar það mál er annars vegar. En í milli­tíðinni er kannski mikil­vægt að fjalla að­eins meira um það hvernig þessari út­gerð var háttað í raun og hverjir nutu góðs af þátt­töku Ís­lendinga í namibískum sjávar­út­vegi.“

Ey­þór tekur fram að honum hafi ekki tekist að selja Sam­herja lausnir fyrir­tækisins sem hann starfaði fyrir á sínum tíma og þá þekki hann eig­endurna ekkert.

„Hins vegar rifja ég reglu­lega upp áður­nefnda heim­sókn mína til Wal­vis Bay þegar ég fylgist með fréttum hér heima um út­gerðina í Namibíu og velti fyrir mér hvort menn nái ekki að stokka spil sín upp á nýtt svo úr verði far­sælt sam­starf til fram­tíðar.“