Eyþór Arnalds velur að kveðja sviðið með sjálfsblekkingum

Í viðtali við Sigmund Erni Rúnarsson á Fréttavaktinni í gær mátti heyra hvernig Eyþór Arnalds, fráfarandi leiðtogi minnihlutans í Reykjavík, er búinn að koma sér upp skýringum á vandræðagangi Sjálfstæðisflokksins í borgarstjórn Reykjavíkur á því kjörtímabili sem lýkur í vor. Flokkurinn hefur setið í minnihluta, eins og lengst af frá árinu 1994, enda var fylgið í síðustu kosningum þrjátíu prósent í stað þeirra fimmtíu til sextíu prósenta sem flokkurinn náði jafnan á árum áður.

Nú leggur Eyþór höfuð áherslu á það að fylgið hafi aukist í síðustu kosningum frá því fullkomna hruni sem varð 2014 þegar Halldór Halldórsson leiddi listann í Reykjavík, en hann hafði verið bæjarstjóri á Ísafirði og kom þaðan ferskur inn í borgarmálin. Fylgi Sjálfstæðisflokksins vorið 2014 er það lakasta í sögunni eða 26 prósent. Næst lakasti árangurinn varð svo undir forystu Eyþórs vorið 2018 eða 30.8 prósent sem hann reynir nú að kalla nothæfan árangur! Þriðji lakasti árangur Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík frá upphafi mældist vorið 2002 þegar Björn Bjarnason leiddi lista flokksins, flokksmönnum til lítillar ánægju. Þá fékk Sjálfstæðisflokkurinn 40 prósent sem var hin mesta sneypuför. Björn Bjarnason ætlaði að fella R-listann en færði honum besta kosningasigur hans, enda hafði Björn engan veginn roð við Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur sem lék sér að honum.

Í samtalinu á Fréttavakt Hringbrautar reyndi Eyþór að kenna Viðreisn um ófarir sínar og flokksins. Viðreisn myndaði meirihluta með Samfylkingu, Pírötum og einum fulltrúa Vinstri grænna. Eyþór afsakar sig með því að honum hafi mistekist að verða borgarstjóri vegna þess að hann hafi ekki getað sagt Viðreisn fyrir verkum. Þar skautar Eyþór létt yfir þá staðreynd að átta flokkar fengu fulltrúa kjörna í borgarstjórn vorið 2018 þannig að væntanlega hafa nokkrir kostir komið til greina við myndun meirihluta. 

Borgarfulltrúarnir 23 skiptust þannig að Sjálfstæðisflokkur hlaut 8 fulltrúa, Samfylkingin 7 og Viðreisn og Píratar tvo fulltrúa hvor flokkur. Eftirtalin framboð náðu einum borgarfulltrúa hvert: Flokkur fólksins, Sósíalistaflokkurinn, Miðflokkurinn og Vinstri grænir.

Fram hefur komið að engin stemning var fyrir því að Samfylking og Sjálfstæðisflokkur mynduðu meirihluta saman og því þurfti að ná saman meirihluta fjögurra flokka. Yfirlýsingar lágu fyrir frá Pírötum og Sósíalistaflokknum um að þeir vildu alls ekki vinna með Sjálfstæðisflokki. Þá voru einungis eftir tveir möguleikar á myndun meirihlutastjórnar: Núverandi meirihluti Samfylkingar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna með samtals 12 fulltrúa eða þá meirihluti Sjálfstæðisflokks ásamt Viðreisn, Miðflokki og Flokki fólksins.

Þegar litið er yfir kjörtímabilið sér hver viti borinn maður að að það var rétt mat Viðreisnar að glórulaust væri að mynda meirihluta með klofnum Sjálfstæðisflokki, þar sem Eyþór og Hildur Björnsdóttir leiddu hvort sína fylkingu, og Vigdísi Hauksdóttur ásamt Kolbrúnu Baldursdóttur. Þarna er því miður ekki um stjórntækan hóp að ræða – sem enginn hefur sýnt skýrar og betur á kjörtímabilinu en Vigdís Hauksdóttir sem hefur komið fram við borgarfulltrúa og borgarstarfsmenn af hreinum dónaskap og jafnvel beitt einelti þegar mest hefur gengið á.

Eyþór Arnalds mun ekki komast upp með að lýsa ferli sínum í borgarstjórn Reykjavíkur 2018 til 2022 með blekkingum. Hann hefur heldur engin rök fyrir því að kenna öðrum um. Ekki er við neinn annan en hann sjálfan og flokk hans að sakast. 

Ferill Eyþórs og núverandi minnihluta í borgarstjórn Reykjavíkur er enn ein sneypuförin. Vitanlega er hart að þurfa að horfast í augu við það. En ekkert annað er í boði.

- Ólafur Arnarson