Er­ling skor­dýra­fræðingur: „Að úða garðinn sinn eitri á ekki að verða sjálf­sagður gjörningur“

„Nú má gera ráð fyrir að garð­eig­endur fari að huga að garða­úðun til að verja gróðurinn fyrir at­gangi svo­kallaðra mein­dýra. Oft hefur meira kapp en for­sjá þar ráðið för,“ segir Er­ling Ólafs­son skor­dýra­fræðingur sem heldur úti Face­book-síðunni Heimur smá­dýranna.

Í nýrri færslu skrifar hann um bý­flugurnar sem komnar eru á stjá. Er­ling bendir á að þær hafi átt í vök að verjast á undan­förnum árum víða um lönd. „Er það mál hið versta og hefur skýringa verið leitað dyrum og dyngjum,“ segir hann.

Hann vísar í um­fjöllun Morgun­blaðsins á dögunum þess efnis að bý­flugurnar hafi rétt úr kútnum í kjöl­far CO­VID-19 far­aldursins. Það sé sönnun þess að sumt illt geti einnig leitt til góðs en í um­fjöllun Morgun­blaðsins var vísað í við­tal AFP-frétta­veitunnar við albanskan bý­flugna­bónda sem sagði að bý­flugna­rækt og hunangs­fram­leiðsla hefði aldrei staðið traustari fótum en nú.

Flugurnar séu nú lausar við skor­dýra­eitur sem notað er í annarri fram­leiðslu. Þá hafi far­aldurinn minnkað mengun og aukið kyrrðina sem kemur bý­flugunum til góða.

Er­ling hvetur fólk til að gæta hófs þegar eitrað er fyrir smá­dýrunum sem fara á kreik þegar sólin hækkar á lofti.

„Maður heyrir talað um að boðið sé upp á eitrun fyrir hinu og þessu, s.s. möðkum, blað­lúsum, köngu­lóm. Hafa skal í huga að engin eitrun er sér­tæk. Eitrun verður alltaf al­menn, drepur allt sem fyrir verður og rústar eðli­legum gangi þess vist­kerfis sem garðurinn er. Að úða garðinn sinn eitri á ekki að verða sjálf­sagður gjörningur.“