Er viss um að hann vildi deyja

22. september 2020
17:28
Fréttir & pistlar

„Ég hugsa nánast um þetta á hverjum einasta degi“, segir Aðalsteinn J. Magnússon um lát föður síns sem tók eigið líf fyrir 23 árum síðan.

Aðalsteinn, sem var í viðtali hjá Lindu Blöndal í þættinum 21 í gærkvöld á Hringbraut, kom að 78 ára föður sínum lífhættulega særðum, þegar faðir hans hafði reynt að fremja sjálfsvíg á heimili sínu sem olli því að hann lést skömmu síðar.

„Hann hafði greinilega skipulagt þetta, orðinn fullorðinn maður og einangraður og maður áttaði sig ekki á því hversu einangraður hann var orðinn og það er alveg víst að hann hafði skipulagt þetta í svolítinn tíma, bara í þögn“, segir Aðalsteinn og rifjar upp þennan örlagaríka dag: „Það var þannig að ég kem alltaf eða kom heim í hádeginu, þetta var 2.janúar og gott veður og ég kem heim, heyrði nú ekki, þetta sko skot, en ég kem inn um dyrnar og þá mæti ég móður minni og hún segir „faðir þinn hefur gert eitthvað", og ég yrði að skoða þetta og mér datt í hug að þetta væri eitthvað alvarlegt og sagði henni að flýta sér bara upp, þetta var í þvottahúsinu og ég hringi á sjúkrabíl strax og fór svo niður og þá náttúrulega sá ég hvers eðlis var, það var nokkuð ljóst svo sem hvaða leið hann myndi taka en þó hann hafi skipulegt þetta vel og sennilega ætlað að hlífa móður minni og reiknað með mér, því ég var þarna að koma og mér dettur helst í hug að hann hafi séð mig þannig að hann hefur vitað að ég myndi sjá um þetta“.

Endurlífgun stöðvuð

Læknir sem mætti með sjúkrabílnum stöðvaði sjúkraflutningamenn í að endurlífga föður Aðalsteins sem enn andaði en hann hafði skotið sig í höfuðið.

Aðalsteinn segist mjög sáttur við þá ákvörðun læknisins á vettvangi að stöðva endurlífgun.

Aðspurður hvort hann sé sannfærður um að faðir hans hafi í raun viljað deyja, segir Aðalsteinn: „Ég er alveg sannfærður“.

Einnig spurður að því hvort að mögulega hefði verið hægt að veita föður hans dánaraðstoð þar sem sú leið sem faðir hans valdi er grimmileg, segist Aðalsteinn telja svo vera. „Maður fer í gegnum hugann og hugsar „hefði maður getað gert eitthvað, hefði verið hægt að ýta honum í sund og hefði ... en ég er viss um að hann hundrað prósent gerði það sem hann vildi gera“.

Í samtali við Aðalstein kemur einnig fram sú skoðun hans að tala eigi meira um dauðann sem eigi ekki að vera tabú og nefna má að fyrir viðtalið hafði hann rætt við nánustu aðstandendur sem samþykktu að hann ræddi sjálfsvígið í fjölmiðlum.

Umfjöllun um dánaraðstoð

Fjallað hefur verið undanfarið um dánaraðstoð í 21 og málið skoðað frá ýmsum hliðum en nýlega kom út skýrsla heilbrigðisráðherra um dánaraðstoð, eftir beiðni frá nokkrum þingmönnum um það.

Þegar rætt er um dánaraðstoð leiðir það hugann m.a. að sjálfsvígum. Sjálfsvíg leggur þungar byrðar á nánustu aðstandendur og veldur þeim og nánustu vinum miklum sárauka og sorg.

Samkvæmt bráðabirgðatölum frá Ríkislögreglustjóra hafa 30 útköll verið vegna sjálfsvíga fyrstu átta mánuði ársins. Í fyrra voru útköllin á sama tíma alls 18 talsins og 23 þar áður 2018.