Er hægt að treysta loforðum ráðherra til fimmtán ára?

1. júlí 2020
15:09
Fréttir & pistlar

Sigurður Ingi Jóhannsson, samgönguráðherra, slær nú um sig í viðtölum í kjölfar þess að Alþingi samþykkti í vikunni þingsályktun um samgönguáætlun til næstu fimmtán ára þar sem gert er ráð fyrir að ríkissjóður verji 900 milljörðum króna til samgöngumála á þessum langa tíma. Sigurður Ingi þykist hafa komið miklu til leiðar.

Skoðum þetta aðeins betur:

  1. Reynslan sýnir að varast ber að taka loforð stjórnmálamanna of hátíðlega. Ekki þarf að leita lengra en til svika menntamálaráðherra varðandi svonefnt fjölmiðlafrumvarp sem á að skila einkareknum fjölmiðlum einhverjum stuðningi. Ráðherra byrjaði að tala um málið og lofa framlögum í nóvember árið 2018. Loforðin voru ítrekuð allt árið 2019 og það sem af er þessu ári. Alls hefur stuðningurinn verið ræddur, honum lofað og hann svikinn í samtals tuttugu mánuði. Samt er hér um fremur lága fjárhæð að ræða , innan við hálfan milljarð króna. Engu að síður svikið. Loforð um samgöngufé er 900 milljarðar fimmtán ár fram í tímann. Átjánhundruð sinnum hærri fjárhæð en Lilja Alfreðsdóttir hefur svikið í tuttugu mánuði!
  2. Ef svo ólíklega vildi til að stjórnvöld stæðu við umrædda þingsályktun um 900 milljarða króna framlög næstu fimmtán árin er þó ekki nema um 60 milljarðar á ári að ræða. Það er ekki há fjárhæð til að sinna öllum þeim aðkallandi verkefnum sem bíða. Um er að ræða heildarfjárveitingar til vega, brúa, jarðgangna, flugvalla og hafna svo eitthvað sé nefnt.

Mikilvægt er að kjósendur rýni vel í staðreyndir þegar ráðherrar slá um sig með ákvörðunum sem eru hreint ekki eins stórar og þeir vilja vera láta. Auk þess sem er undir hælinn lagt hvort staðið verði við þær. Mörg dæmi eru sýnileg um hið gagnstæða.