Er Bjarni Benediktsson friðhelgur á jólaföstu?

Stefán Örn Arnarson varaformaður Landssambands lögreglumanna mætti fyrir stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis og ræddi um verklag nefndar um eftirlit með lögreglu vegna hins svonefnda Ásmundarsalarmáls. Gagnrýndi hann málsmeðferðina harkalega á fundi nefndarinnar.

Eins og flestir muna snerist Ásmundarsalarmálið um að á Þorláksmessu í fyrra komu 40 til 50 manns saman í gleðskap í Ásmundarsal þar sem ríkti glaumur og gleði, áfengi var haft um hönd og sannköllkuð partístemning ríkti. Á þeim tíma voru í gildi reglur um sóttvarnir sem kváðu á um að ekki máttu fleiri en tíu manns koma saman, tveggja metra fjarlægðarregla gilti og grímuskylda þar sem ekki var hægt að framfylgja tveggja metra reglunni.

Óhætt er að segja að þessar ströngu takmarkanir settu sannarlega strik í reikninginn hjá þorra almennings sem neitaði sér um fjölskyldu og vinafagnaði á aðventunni og yfir hátíðarnar í fyrra. Þetta var súrt í broti en flestir létu sig hafa það að hlýða vegna þess að andspænis miklum vágesti er samstaðan mikilvæg.

Meðal gesta í gleðskapnum í Ásmundarsal var Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins. Innan við hálfum mánuði fyrr var hann á ríkisstjórnarfundi þar sem heilbrigðisráðherra kynnti hinar ströngu sóttvarnareglur sem giltu frá 10. desember 2020 til 12. janúar 2021. Reglurnar voru settar vegna þess að þriðja bylgja Covid-19 faraldursins var enn í gangi og Landspítalinn starfaði á mörkum hættu- og neyðarstigs. Ráðherranum var því vel kunnugt um alvarleika málsins.

Varaformaður Landsambands lögreglumanna gagnrýndi það á fundi þingnefndarinnar að nefnd um eftirlit með lögreglu, sem tók það upp hjá sjálfri sér að rannsaka Ásmundarsalarmálið skyldi einblína orð sem féllu í einkasamtali tveggja lögreglumanna á vettvangi í stað þess að horfa á málið í samhengi. Undir þessa gagnrýni má taka.

Dómsmálaráðherrann úr flokki fjármálaráðherra hafði tvisvar samband við lögreglustjórann á höfuðborgarsvæðinu á aðfangadag vegna málsins. Allri athygli er beint að samtölum lögreglu og tilkynningum frá henni en ekki að kjarna málsins, sem er vitanlega að haldið var partí og sóttvarnareglum gefið langt nef. Í paríinu voru broddborgarar með sjálfan fjármálaráðherra landsins í broddi fylkingar. Hann hefur aldrei verið svo mikið sem yfirheyrður vegna brotsins. Engin rannsókn virðist hafa farið fram önnur en sú að kafa ofan í tveggja manna tal einkennisklæddra lögreglumanna sem kallaðir voru út til að stöðva ólöglega samkomu.

Kjarni málsins virðist vera sá að Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, er friðhelgur – alla vega á jólaföstunni – kerfið verndar hann og í þetta sinn er smjörklípan sú að óbreyttir lögreglumenn hafi talað ógætilega í einkasamtali. Það dugar til að leiða athyglina frá því að ráðherra í ríkisstjórn Íslands setur öðrum reglur sem hann fer ekki eftir sjálfur – og kemst upp með það.

- Ólafur Arnarson