Enska jólakakan fullkomnuð af meisturunum í G.K. bakarí

Félagarnir Guðmundur Helgi Harðarson og Kjartan Ásbjörnsson eiga og reka eitt frumlegasta bakarí landsins, G.K. bakarí á Selfossi sem hefur vakið mikla athygli fyrir ljúffengt og öðruvísi bakkelsi og kökur sem vekja kátínu og gleði hjá öllum sælkerum. Þeir leggja mikla áherslu á að nota aðeins hágæða hráefni og sækja innblástur sinn í nærumhverfið sem er einmitt sérstaða þeirra.

Þeir félagar eru í óðaönn að undirbúa jólin og eru komnir á fullt í aðventunni að galdra fram nýjungar bakstrinum í bland við frægar jólakökur sem þeir eru búnir að gera að sínum. Sjöfn Þórðar heimsækir Guðmund og Kjartan í bakaríið og fær smjörþefinn af því sem þeir eru að gera jólabakstrinum.

M&H Enska jólakakan 2021 G.K. bakarí.jpg

Þessa dagana eru þeir að fullkomna ensku jólakökuna og orðnir spenntir að kynna hana fyrir viðskiptavinum sínum. „Enska jólakakan hefur átt sess á veisluborðum Íslendinga í gegnum tíðina en hún á rætur sínar að rekja til Englands, eins og nafnið ber með sér. Kökuna hafa enskir sjómenn ef til vill kynnt fyrir Íslendingum þegar þeir voru við veiðar við Íslandsstrendur forðum daga, enda er þessi kaka tilvalinn skipskostur því sykur og alkóhól eru rotvarnarefni og kakan því haldist fersk á löngu ferðalagi þeirra frá vesturströnd Englands,“segir Guðmundur sposkur á svip og veit ekkert skemmtilegra en að kynna sér tilurð og sögu frægra kræsinga eins og jólakökunnar.

„Hefðum samkvæmt eru þurrkaðir ávextir, svo sem rúsínur og gráfíkjur, lagðir í sherry svo þeir dragi í sig raka og bragð, blöndunni bætt í einfaldan grunn og kakan vökvuð með sherry, brandy eða sætum líkjör á nokkura daga fresti eftir bakstur fram að framleiðslu,“segir Kjartan en bætir því við að þeir séu búnir að setja sitt mark á ensku jólakökuna. Sjöfn fær þá félaga til að svipta hulunni af uppskriftinni af þeirra útgáfu af þeirri ensku í þættinum Matur og Heimili í kvöld og meira til. En þeir liggja á fleiri leyndarmálum í jólakökubakstrinum, Jóladrumbinum, sem Sjöfn fær þá til segja frá í kvöld.

M&H Jóladrumburinn 2021 G.K. bakarí.jpg

Missið ekki af lokkandi og skemmtilegri heimsókn Sjafnar í G.K. bakaríið á Selfossi í kvöld í þættinum Matur og Heimili á Hringbraut.

Þátturinn er frumsýndur kl.19.00 í kvöld og fyrsta endursýning er kl.21.00.

M&H GK bakarí des 2021 .jpg

Sjöfn í góðum félagsskap með meisturunum Kjartani Ásbjörnssyni og Guðmundi Helga Harðarsyni í G.K. bakaríi á Selfossi.

M&H Guðmundur og Kjartan njóta sín í bakaríinu - líka að spila 2021