Aníta Estíva skrifar

Tíu verstu óveðrin sem gengið hafa yfir landið: „í kópa­vogi fuku bílar um eins og eld­spýtu­stokkar“

13. febrúar 2020
21:40
Fréttir & pistlar

Stormurinn sem mun ganga yfir landið á morgun, föstudaginn 14. febrúar, mun hafa gífurleg áhrif á alla landsmenn. Búið er að fresta öllu flugi, almannavarnir hafa lýst yfir óvissustigi og er fólk beðið um að ferðast ekki að óþörfu. Hér fyrir neðan má lesa um tíu verstu óveðrin sem gengið hafa yfir landið, að undanskildu óveðrinu sem flestir ættu að muna eftir og gekk yfirlandið þann 9. og 10. desember síðastliðinn. 

Í gegnum árin hafa hin ýmsu ó­veður skollið á landinu og sum þeirra valdið miklu tjóni. Það allra versta átti sér stað 3. febrúar 1991 en talið er að skemmdirnar hafi hlaupið á milljörðum króna.

Ó­veðrið árið 2012

Af­taka­veður gekk yfir landið þann 2. nóvember árið 2012 og slösuðust margir vegna þess.

 \"\"

Veðrið var verst á Suður­landi frá Eyja­fjöllum að Vatna­jökli og var þar víða raf­magns­laust um tíma­bil.

Tjón vegna veðursins var gríðar­legt og var fjöldi björgunar­sveitar­manna að störfum við erfiðar að­stæður.

Hér má sjá umfjöllun Ríkissjónvarpssins um storminn:

 

Ó­veðrið árið 2003

Þann 29. desember það ár skall á mikið óveður á suðvesturhorni landsins og náði upp á Snæfellsnes. Það færðist síðan norður- og austur yfir landið líkt og kom fram í Fréttablaðinu þann 30. desember. Mikil og stöðug snjókoma gerði það að verkum að margir ökumenn festu bíla sína í snjó á höfuðborgarsvæðinu og voru björgunarsveitir kallaðar út þar og á Akranesi til að aðstoða ökumenn.

Skömmu fyrir hádegi mynduðust miklar og langar bílaraðir og sátu fjölmargir þeirra fastir. Í Fréttablaðinu kom fram að verst hafi ástandið verið í úthverfum borgarinnar og til dæmis hafi öll umferð um nýja brú í Grafarholti stöðvast í nokkra klukkutíma vegna ófærðar.

 \"\"

Ó­veðrið árið 1991

Tjón varð á fjölda bygginga í ó­veðrinu og mátti sjá heilu þökin fjúka af húsum. Bátur sökk, þök fuku af fjár­húsum, bátur þeyttist á land og brotnaði og einnig fauk hænsna­kofi með tólf hænum.

 \"\"

Fjöldi farar­tækja skemmdust og mikið tjón varð á gróðri þegar tré rifnuðu upp með rótum og þökur flettust af túnum. Annað af lang­bylgju­möstrunum á Vatns­enda­hæð hrundi, sumar­bú­staður í Önundar­firði fauk á haf út í heilu lagi og í Hruna­manna­hreppi splundraðist fjár­hús. Í Vest­manna­eyjum og í Kefla­vík þurfti að flytja fólk úr í­búðar­húsum sínum og koma því í öruggt skjól.

Lög­regla- og slökkvi­liðs­menn, björgunar­sveitir og aðrir sjálf­boða­liðar lögðu sig víða í mikla hættu við að bjarga verð­mætum en talið er að tjónið hafi kostað að þá­virði meira en einn milljarð króna.

 \"\"

Ó­veðrið árið 1981

Árið 1981 gekk stormur yfir landið sem fékk nafnið Engi­hjalla­veðrið. Á­stæða þess var að í Engi­hjallanum í Kópa­vogi mátti sjá bíla takast á loft og fjúka um svæðið. Stormurinn olli miklu tjóni á bíla­stæðum við blokkirnar en talið er að þær hafi átt sinn þátt í að skapa snarpar vind­hviður.

Tveir menn létust í Vest­manna­eyjum en þeir voru um borð í bátnum Heima­ey. Brot kom í bátinn og þá tók út. Þá fauk kirkja af grunni sínum í Saur­bæ í Dölum og lenti á fé­lags­heimili sem var við hlið hennar.

Ómar Ragnars­son tjáði sig um ó­veðrið og hafði meðal annars þetta að segja: „Vindurinn komst í 93 hnúta á Reykja­víkur­flug­velli en það sam­samar 46 m/sek sem er 14 metrum yfir mörkum fár­viðris. Mér er minnis­stætt hve miklu munaði að ég missti flug­vélarnar mínar tvær út í buskann vegna þess að vind­hraðinn var tvö­falt meiri en þurfti til að feykja þeim hvort eð var. En nafnið Engi­hjalli er í margar huga bundið við þetta veður vegna þess að við götu með því nafni austast í Kópa­vogi fuku bílar um eins og eld­spýtu­stokkar.“

 \"\"

Ó­veðrið árið 1973

Dagana 23. og 24. septem­ber árið 1973 skullu leifarnar af felli­bylnum Ellen á Ís­landi. Var það talið hið versta á þeim árs­tíma á síðari hluta 20. aldar. Í þeim stormi urðu gríðar­legir fokskaðar um landið sunnan- og vestan­vert og eyði­lagðist meðal annars þúsund fer­metra gróður­hús í Mos­fells­bæ. Þar skemmdust einnig veru­lega Finnsku við­laga­sjóðs­húsin, þa­k­járn losnaði og fauk af mörgum húsum og rúður brotnuðu út um allan bæ. Fok­helt hús á Álfta­nesi fauk og varð rústir einar. Þak hússins hafnaði á Land­rover jeppa. Tvö möstur í Búr­fells­línu 1 brotnuðu, móta­upp­sláttur skemmdist og fauk á flestum ný­byggingar­svæðum. Á Sel­fossi „rakst“ lög­reglan á hest­hús sem farið hafði af stað í heilu lagi.

Mikil úr­koma fylgdi storminum og hamlaði sums staðar för lög­reglu og björgunar­manna á­samt því að raf­magns­truflanir urðu víða. Neyðar­á­standi var lýst yfir í Reykja­vík og hafði lög­reglan engan vegin undan og leitaði að­stoðar frá utan að komandi aðilum.

Einar Svein­björns­son veður­fræðingur hafði meðal annars þetta að segja um ó­veðrið:

„Í Morgun­blaðinu 25. septem­ber er tjón af ýmsu tagi tíundað á mörgum síðum á­samt ljós­myndum sem segja meira en mörg orð. Tjónið varð veru­legt og röskunin eftir því. Þó var lán í ó­láni að ó­veðrið skall á Sunnu­degi. Ljóst er að ef sam­bæri­legt ill­viðri skylli á höfuð­borgar­svæðinu nú á dögum mundi það valda veru­legu tjóni og miklu meiri sam­fé­lags­röskun en það gerði þó árið 1973. Fólk situr endi­lega ekki heima í ó­veðri í dag, margir telja sig verða að komast á milli staða hvað sem á bjátar.“

 \"\"

Ó­veðrið árið 1953

Ó­veðrið sem gekk yfir árið 1953 hefur gjarnan verið kallað Eddu­veðrið. Í því fórst vél­skipið Edda úr Hafnar­firði með níu mönnum innan­borðs. Skipið var við festar um hundrað og fimmtíu faðma undan bryggjunni í Grafar­nesi á Grundar­firði þegar stormurinn skall á.

„Um kl. Hálf fimm um nóttina gerðist sá ó­trú­legi at­burður að skipinu hvolfti í einni hrinunni. Þegar þetta gerðist var skip­stjórinn á stjórn­palli, nokkrir menn á þil­fari en flestir neðan þilja, enda var ný­búið að hafa vakta­skipti. Vélar skipsins voru í gangi. Fimm­tán skip­verjar komust á kjöl, en þá var veður of­boðs­legt og slydda. Flestir mennirnir voru illa búnir, enda sumir gengnir til hvílu, er skipinu hvolfdi. Annar nóta­bátur skipsins var bundinn við það, hálf­fullur af sjó. Ellefu menn komust upp í bát þennan, sem bar fljótt frá skipinu og út í nátt­myrkrið,“ segir í grein Vísis frá árinu 1953 sem fjallaði um vél­skipið Eddu.

Þegar nóta­bátur skipsins bar að landi voru tveir skip­verjar látnir af vos­búð og á leið til bæjar lést þriðji skip­verjinn. Í heildina fórust því níu skip­verjar í slysinu og var stormurinn í kjöl­farið kenndur við nafn skipsins.

\"\"

 \"\"

Ó­veðrið árið 1942

Árið 1942 mældist meiri vind­hraði í vind­hviðu en vitað er til að mælst hafi í Reykja­vík. Mælingin var gerð á Reykja­víkur­flug­velli og mældist vind­hraðinn 59,5 metrar á sekúndu.

Mikill skaði varð á flug­vellinum, í Reykja­vík og víðar á landinu. Tólf vind­stig var talið á tíu veður­stöðvum sem flokkast undir fár­viðri en níu vind­stig eða stormur mældist á 36 veður­stöðvum.

Ó­veðrið árið 1936

Að­fara­nótt 16. septem­ber árið 1936 fórust fimmtíu og sex sjó­menn við Ís­lands­strendur. Þar af voru þrjátíu og níu úr á­höfninni af franska rann­sóknar­skipinu Pourqu­oi Pas. Þá dóu tólf ís­lenskir sjó­menn og fimm norskir sem voru skipverjar á samtals fimm skipum og bátum.

Mikið eigna­tjón varð á Snæ­fells­nesi og á Vest­fjörðum. Í Hnífs­dal fauk í­búðar­hús á haf út og á Pat­reks­firði rak alla báta á land eða þeir sukku, að einum undan­teknum. Hús skemmdust og fuku jafn­vel í heilu lagi.

Í Vest­firskum slysa­dögum segir Eyjólfur Jóns­son að í Hnífs­dal hafi fokið í­búðar­hús Ingólfs Jóns­sonar á Stekkum á sjó út og skipti veðrið húsinu ofan af Ingólfi, konu hans og þremur börnum sem stóðu fá­klædd eftir á gólfinu.

Í vél­bátnum Birni höfðu um fimmtíu Ís­firðingar verið komnir um borð þegar veðrið skall á. Báturinn lagðist því í Hest­firði og fóru margir og tjölduðu. Um tuttugu manns urðu eftir í bátnum og um nóttina slitnuðu festar og rak bátinn í land utan­vert við Sel­eyri í Hest­firði. Allir björguðust en lentu í hrakningum við land­tökuna og á leið til bæja. Þeir sem tjaldað höfðu lentu einnig í hrakningum því tjöldin fuku út í veður og vind.

 \"\"

Ó­veðrið árið 1925

Um há­degis­bil þann 7. febrúar árið 1925 skall snögg­lega á fár­viðri sem ekkert fékkst ráðið við. Hefur það verið kennt við Hala­mið á Vest­fjörðum og kallast í dag­legu tala Hala­veðrið.

Tveir togarar fórust í veðrinu, Leifur heppni og Field­mars­hal Robert­son. Með Leifi heppna fórust þrjá­tíu og þrír menn allt Ís­lendingar en með Field­mars­hal Robert­son fórust tuttugu og níu Ís­lendingar og sex Eng­lendingar. Sjó­mennirnir börðust við hams­laust ó­veðrið í sólar­hring en sama hvernig reynt var að bregðast við gekk ekkert upp og fórust í heildina sjötíu og fjórir sjó­menn.

„Á þessu svæði mætast Golf­straumurinn úr suðri og pól­straumurinn úr norðri og þarna verður sjó­lag hræði­lega slæmt við svona skil­yrði. Þetta voru mjög gjöful mið og Ís­lendingarnir sátu einir að þeim vegna þess að út­lendingarnir lögðu ekki í að veiða þarna,“ sagði Steinar J. Lúð­víks­son í við­tali á Rás 1 þar sem hann greindi frá bar­áttu sjó­mannanna.

„Um leið og ó­veðrið skall á hófst bar­átta upp á líf og dauða hjá öllum þessum skipum. Þetta var mönnunum mjög í fersku minni, höfðu aldrei hvorki fyrr né síðar upp­lifað annað eins.“

Steinar segir að á þessum tíma hafi menn verið ný­farnir að sækja Hala­miðin að ein­hverju ráði en þar gátu veður orðið vá­lynd skyndi­lega. Þegar upp var höfðu þrjátíu og tvær konur misst menn sína og níutíu og eitt barn varð föður­laust.

„Það voru fimmhundruð menn á sex­tán skipum, og mikil fjöl­skyldu- og ættar­tengsl á milli, meðal annars veifaði einn bróður sínum á Leifi heppna í síðasta sinn.“

 \"\"

Ó­veðrið árið 1900

Árið 1900 gerði mann­skaða­veður á landinu sem nefnt hefur verið Kirkju­rokið. Í ó­veðrinu fuku eða skekktust á grunni sínum allar fjórar kirkjurnar í Svarfaðar­dal. Hús í heilu lagi á Ár­skógs­strönd fauk með átta manns innan veggja og létust þrír þegar húsið enda­steyptist fram af sjávar­bakka. Þá fórust einnig sau­tján sjó­menn á fjórum bátum í ó­veðrinu.

Í heildina fórust um þrjátíu og níu manns af völdum veðursins og einnig varð gríðar­legt eigna­tjón víðs vegar um landið.

Birtist áður á vef Fréttablaðsins.

Við endum svo á myndskeiði frá óveðrinu mikla frá 3. febrúar árið 1991 þar sem ítarlega var fjallað um hið mikla tjón sem talið var í milljörðum: