Bjartmar Oddur Þeyr Alexandersson skrifar

Góðverk gunnars: ótrúleg sjón blasti við í kuldanum - „kostaði mig korter af ævi minni“

13. janúar 2020
17:20
Fréttir & pistlar

„Ég sat í strætóskýli í dag þegar gaur labbaði þangað inn í sandölum og stuttbuxum. Ég spurði hann hvort að honum væri ekki kalt. Hann svaraði játandi. Ég bauðst til að fara með hann í Rauða kross búðina og hann játti því.“ 

Þetta segir Gunnar Örn Heimisson Maríusson, þýðandi, sem er búsettur í Hillerød rétt fyrir norðan Kaupmannahöfn í Danmörku. Í samtali við Hringbraut segir Gunnar Örn að það hafi verið mjög kalt þennan dag, eða í kringum frostmark þegar hann hitti á manninn á förnum vegi en ljóst var að hann þurfti á aðstoð að halda.

Gunnar bauð manninum að koma með sér og saman fóru þeir í búð á vegum Rauðakrossins. Þar keypti Gunnar buxur og peysu á manninn sem fannst hann hafa himinn höndum tekið. En Gunnar lét ekki þar við sitja. Kalt hefur verið í landinu og eftir verslunarferðina bauð Gunnar manninum heim þar sem hann færði honum að gjöf íslenska lopasokka og nýja skó.

„Svo keyptum við buxur og peysu. Við fórum við svo heim til mín og þar fékk hann íslenska lopasokka og nýja skó sem voru aðeins of stórir á mig en gagnaðist honum. Svo fengum við okkur instant kaffi.

Gunnar segir að það sé svo oft hægt að hjálpa fólki með litlum tilkostnaði og fyrirhöfn. Vonast hann til að frásögn hans verði til að hvetja aðra til að hjálpa fólki í neyð eða láta gott af sér leiða.

Þetta kostaði mig korter af ævi minni. Þetta kostaði mig það sama og kaffibolli á Starbucks. Það er svo oft hægt að hjálpa fólki, með litlum tilkostnaði og fyrirhöfn.“