Engin Menningar­nótt í ár

Ekkert verður af Menningar­nótt í Reykja­vík í ár vegna Co­vid-19 far­aldursins. Þetta kemur fram á vef Fréttablaðsins. Neyðar­stjórn Reykja­víkur­borgar fundaði um málið í morgun og tók ákvörðun um örlög afmælishátíðarinnar. Dagur B. Eggerts­son borgar­stjóri segir neyðar­stjórn borgarinnar hafi verið ein­huga í á­kvörðun sinni.

Þetta er í fyrsta sinn frá árinu 1996 sem Menningar­nótt fer ekki fram en af­mælis­há­tíðin er haldin ár hvert helgina eftir af­mæli Reykja­víkur þann 18. ágúst.

Nauð­syn­legt að sýna á­byrgð

„Þetta er auð­vitað leitt en við verðum öll að sýna á­byrgð og lág­marka hættu á smitum í sam­fé­laginu,“ sagði Dagur um á­kvörðunina.

Fyrr í sumar stóð til að dreifa há­tíðar­dag­skránni yfir tíu daga tíma­bil en í ljósi hertari sam­komureglna þótti rétt að af­lýsa henni. „Við höfðum verið að skoða ó­líkar út­færslur á há­tíðinni en í ljósi þróunar síðustu daga og vikna töldum við réttast að af­lýsa Menningar­nótt í ár,“ í­trekaði borgar­stjóri.

Það er von Reykja­víkur­borgar að há­tíðin verði enn kraft­meiri á næsta ári.