Engilbert varpaði sprengju í Costco-samfélagið: Rökræðan mikla – Hvort er réttara, A eða B?

Engilbert Arnar Friðþjófsson, sem stundum hefur verið kallaður Costco-kóngurinn, varpaði hálfgerðri sprengju í einn fjölmennasta Facebook-hóp landsins á dögunum, COSTCO – Gleði.

Rúmlega 45 þúsund meðlimir eru í hópnum en það var ein tiltekin spurning á dögunum sem setti hópinn nánast á hliðina. Hún var í raun einföld en samt svo mikilvæg í augum margra: Hvernig er eiginlega réttast að snúa klósettrúllunni á klósettrúlluhaldaranum.

Þegar þetta er skrifað hafa rúmlega 1.600 manns skrifað athugasemd við færsluna og sitt sýnist hverjum. Eins og meðfylgjandi mynd ber með sér voru tveir möguleikar í boði, A eða B. Í raun er óþarfi að hafa mörg orð um þessa tvo möguleika og skýra myndirnar sig vel sjálfar.

Það er skemmst frá því að segja að langsamlega flestir segja að möguleiki A sé réttur en örfáir segja að möguleiki B sé réttur. Svo eru aðrir sem segja að báðir möguleikar séu jafn góðir. Þá segir í einni athugasemd, sem er svo sem alveg rétt: „Svo lengi sem það er pappír í boði er mér alveg sama.“

Mjög margir virðast hafa skoðun á þessu en eins og að framan greinir virðast langflestir aðhyllast möguleika A. Þetta virðist einnig vera tilfinningamál hjá sumum. „Hata B og sný henni ítrekað við ef ég tek eftir þessu,“ segir til dæmis í einni athugasemd.

Hvað segja lesendur annars, er A ekki alltaf málið?