Endurskoðun húsaleigulaga ekki hugsað til að fita efnahagsreikning leigufélaga

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra segir tillögur um aukinn stuðning til leigjenda séu ekki hugsaðar til að fita efnahagsreikning leigufélaga heldur til stuðnings almennings.

Fréttablaðið greinir frá.

Mikil umræða hefur skapast í kjölfar þess að 65 ára öryrki steig fram fyrr í vikunni og greindi frá síður skemmtilegri jólagjöf frá leigufélaginu Ölmu þar sem henni var tilkynnt um 75 þúsund króna hækkun á leigu.

Starfshópur á vegum innviðaráðherra vinnur að endurskoðun húsaleigulaga með það að markmiði að bæta réttarstöðu og húsnæðisöryggi leigjenda.

Fjöldi fólks er sagður á vergangi og færst hefur í vöxt að Íslendingar sofi í bílum. Á sama tíma skilaði Alma 12,5 milljarða króna hagnaði á síðasta ári.

„Stjórnvöld hafa verið að vinna tillögur um aukinn húsnæðisstuðning en hann er ekki hugsaður til að fita efnahagsreikning leigufélaganna heldur til að styðja við fólkið í landinu,“ segir Katrín og heldur áfram:

„Ég vil ítreka mikilvægi þess að leigufélögin sýni sanngirni, gangi fram af hófstillingu og leggist á árarnar með okkur til að greiða fyrir farsælum kjarasamningum á verðbólgutímum,“ segir Katrín og bætir við að það sé morgunljóst að setja þurfi miklu skýrari ramma í löggjöf um leigumarkaðinn.

Umfjöllun Fréttablaðsins má lesa í heild sinni hér.