Emma spyr: Ættu öryrkjar að senda börn sín í vist 10 ára?

„Sjálf hef ég brugðið á það ráð að endurfjármagna íbúð mína tvisvar sinnum til að standa straum af auknum kostnaði og styðja mitt barn. Mig verkjar svo í hjartað því ekki eru allir svo heppnir að geta það,“ segir Emma Agneta, í aðsendri grein á Vísi. Hvetur hún til að börn öryrkja fái sömu tækifæri til náms og íþróttastarfs.

„Sveitafélögin leggja fram íþrótta og tómstundaávísun sem dugar skammt fyrir flesta. En um leið er ekki gert ráð fyrir því að öryrkjar þurfa að kaupa búnað sem tengjast íþrótta og tómstundastarfi,“ segir hún.

„Ég hef tekið eftir börnum hér á Íslandi sem hafa aldrei átt reiðhjól. Sumir foreldrar bregða á það ráð síðustu daga mánaðarsins að senda börn sín ekki í skólann, því það er ekki til fyrir nesti eða senda þau nestislaus. Það kostar jú að vera í grunnskóla. Þó að það sé ekki ég sem geri það þá eru margir í þessari stöðu.“

Tekur hún afa sinn sem dæmi, ólst hann upp í sárri fátækt en fór í vist um 10 ára aldur hjá lækni. „Hann varð síðar læknir með sérmenntun í smitsjúkdómum, seinna sæmdur riddarakrossi Dana og fálkaorðunni,“ segir hún. „Mér er skapi næst að skrifa hvort öryrkjar ættu að reyna senda börn sín í vist um 10 ára eins og tíðkaðist á 19. öldinni því að kaka Íslands er ekki fyrir alla.“