Elva Björk þungt hugsi: Að fólk skuli voga sér að kvarta yfir fimm dögum í farsóttarhúsi

„Í mínum huga snýst þetta aðallega um að fólk geri sér grein fyrir allri vinnunni sem fer fram á bakvið tjöldin og fórnunum sem það fólk færir. Þær eru talsvert stærri en 5 dagar í sóttkví,“ segir Elva Björk Ragnarsdóttir hjúkrunarfræðingur í samtali við Hringbraut. Elva Björk starfar sem fagstjóri hjúkrunar á Læknavaktinni.

Elva Björk skrifaði færslu á Facebook-síðu sína í gær, á páskadag, þar sem hún velti fyrir sér umræðunni í tengslum við sóttvarnarhótelið. Pistilinn var skrifaður áður en héraðsdómur kvað upp þann úrskurð að ólögmætt væri að skikka fólk í sóttkví í sóttvarnarhúsi.

Sjá einnig: Úrskurðurinn kominn: Ólögmætt að vista fólk í farsóttarhúsi

Breyttar reglur tóku gildi þann 1. apríl síðastliðinn en þær fólu í sér að farþegar frá svokölluðum rauðum löndum, þar sem COVID-19 smit eru útbreidd, þurftu að fara í sóttkví á sóttvarnarhóteli. Sitt sýndist hverjum um þetta og heyrðust háværar gagnrýnisraddir frá ýmsum aðilum, meðal annars lögmönnum sem fóru með málið fyrir dóm.

Í pistlinum, sem vakið hefur talsverða athygli, benti Elva Björk á að margir hér á landi hefðu þurft að færa miklar fórnir síðastliðið ár vegna faraldursins. Þar á meðal heilbrigðisstarfsfólk sem hefur reynt af öllum mætti að koma í veg fyrir ónauðsynleg dauðsföll.

„Að fólk skuli bara hreinlega voga sér að kvarta yfir því að þurfa að dvelja í sóttkvíarhúsi og kalla það frelsissviptingu þegar eini tilgangurinn er að verja fólk gegn smiti og jafnvel dauða, það get ég ekki skilið,“ sagði Elva meðal annars en pistilinn má lesa í heild hér að neðan.

„Í dag er ég búin að vera ansi hreint hugsi. Það sem vakti mig fyrst til umhugsunar á þessum annars fallega páskadegi var viðtal við Ragnar Jónsson rannsóknarlögreglumann á Vísi. Þar rifjar hann upp mótmælin á Austurvelli 21. janúar 2009. Þennan dag setti hann upp gasgrímu og hjálm og hjartað barðist um í brjósti hans þar sem hann óð inn í aðstæður sem hann þekkti ekki. Hann lét samborgara sína grýta sig með múrsteinum. Hann skoraðist ekki undan því þetta var vinnan hans. En hann var líka reiður alveg eins og fólkið sem grýtti hann.

Á sama hátt hefur heilbrigðisstarfsfólk af öllum stéttum ítrekað vaðið inn í óþekktar aðstæður með hjartað berjandi í brjóstinu síðastliðið ár. Sum okkar voru kannski hrædd eins og sum ykkar en engum datt í hug að skorast undan. Þetta er vinnan okkar. Við höfum unnið dag og nótt, jól og tvenna páska að misjöfnum, en jafn mikilvægum verkefnum. Við höfum hjúkrað, frætt, verndað, huggað, skipulagt og reynt af öllum mætti að koma í veg fyrir að fólk deyi að óþörfu.

Að fólk skuli bara hreinlega voga sér að kvarta yfir því að þurfa að dvelja í sóttkvíarhúsi og kalla það frelsissviptingu þegar eini tilgangurinn er að verja fólk gegn smiti og jafnvel dauða, það get ég ekki skilið. Það veit það enginn fyrirfram hvern þessi veira leikur grátt.

Í dag er páskadagur. Honum fær Þórólfur að eyða í Héraðsdómi Reykjavíkur, ég hefði óskað honum þess að fá að borða páskaeggið sitt og lesa góða bók í friði. Það eru allir að gera sitt besta.

Ég hvet ykkur til að horfa á stikluna sem ég læt fylgja, hún veitir innsýn í heim þeirra sem hafa unnið við og orðið fyrir faraldrinum hér á landi. Þetta er ekki búið að vera neitt grín ef einhver heldur það.

Kærleikskveðjur af páskavaktinni