Elliði ósáttur og birtir mynd úr kennslustofu hér á landi: Illa vegið að Sjálfstæðisflokknum

Elliði Vignisson, bæjarstjóri Ölfuss, segir að framganga kennara við Verslunarskóla Íslands sem líkt Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni við Adolf Hitler og Benító Mússólíní sé ekki einsdæmi.

„Ég kenndi í framhaldsskóla í áratug í "gamla lífinu" mínu og er enn skráður sem kennari í símaskránni. Í FÍV kenndi ég með fólki með sterkar pólitískarskoðanir. Almennt gættu þeir þess að stunda ekki innrætingu og forðuðust hlutdrægni og fordæmingu í kennslu. Valdajafnvægið í kennslustofunni er enda mjög ójafnt og börnin/nemendurnir á viðkvæmu mótunarskeiði,“ bendir Elliði á í færslu sinni.

Hann segir að nú sé öldin önnur og rifjar upp mál kennara Verslunarskóla Íslands og umtalaða glæru sem hann sýndi nemendum.

„Kennari (sem jafnframt var frambjóðandi Vinstri grænna) líkir íslenskum miðjumanni við tvö af þremur mestu illmennum stjórnmálasögu hins vestrænna heims í seinni tíma; Hitler og Mussolini (sá þriðji er Stalin). Í kjölfarið stígur skólameistari fram til varnar þeim gjörningi. Framganga kennarans í Versló var hinsvegar þvi miður ekki einsdæmi um hvernig innræting er stunduð í kennsluaðstæðum,“ segir hann og birtir mynd af umræddri glæru sem hann segir vera frá Menntaskólanum við Sund.

„Þessi glæra (sem er úr MS) þar sem Sjálfstæðisflokknum er líkt við þýskaland Hitlers, Gestapo og úræmingu kynþátta talar sínu máli. Hvað er til ráða?“