Elko birtir verðsögu á öllum vörum sínum

Raftækjafyrirtækið Elko hefur tekið þá ákvörðun að birta verðsögu á öllum vörum á vefsíðu fyrirtækisins, Elko.is. Að sögn fyrirtækisins er þetta hluti af nýrri stefnu þar sem lögð er áhersla á gagnsæi, þjónustu og aukið samtal við viðskiptavini.

„Með því að sýna verðsögu á vörum í vefverslun viljum við taka þátt í umræðunni með neytendum og sýna í verki að það sem skiptir viðskiptavini máli, skiptir okkur máli,“ segir Arinbjörn Hauksson, markaðsstjóri ELKO, í tilkynningu til fjölmiðla.

„Gögnin eru sett fram á vöruspjaldi hverrar vöru á þann hátt að viðskiptavinir eiga auðvelt með að lesa úr þeim. Verðsagan er birt á grafi þar sem sjá má auglýst verð vöru við lok dags ásamt því að tilboðsverð vöru á gefnu tímabili er sérstaklega merkt inn á grafið. Vert er að taka það fram að það eru margir þættir sem geta haft áhrif á verðlagningu eins og t.d. innkaupsverð, gengi og opinber gjöld svo eitthvað sé nefnt,“ segir í tilkynningu fyrirtækisins.

Arinbjörn segir að viðskiptavinir séu ávallt á tánum varðandi réttindi sín og ósjaldan skapist þarfar umræður um verðbreytingar á einstökum vörum. Þessi umræða sé yfirleitt hvað hæst í kringum útsölur eða aðra tilboðsdaga þegar mikið er pantað inn af nýjum vörum og verðbreytingar eru örar.