Eliza for­seta­frú hellir sér yfir Morgun­blaðið: „Ó­trú­leg hrúta­menning hér enn til staðar“

Eliza Reid, forsetafrú Íslands, jós úr skálum reiði sinnar í færslu á Facebook í dag vegna forsíðufréttar Morgunblaðsins frá því í morgun. Þar er stór mynd af Elizu og eiginmanni hennar, Guðna Th. Jóhannessyni forseta, að taka á móti Friðriki krónprinsi Danmerkur þar sem hann mætti á Bessastaði í gær í hátíðarkvöldverð.

Í textanum við myndina er hvergi minnst á Elizu Reid en þrátt fyrir það er hún í forgrunni myndarinnar og sést taka í höndina á Friðriki og bjóða hann velkominn á Bessastaði. Það er kveikjan að færslu Elizu.

Þar segir hún: „Í stuttu máli er myndatextinn á forsíðu blaðsins í dag svona: Einn karlmaður sem ber nafn kom í kvöldverð hjá öðrum karlmanni sem ber nafn. Með gestinum var þriðji karlmaðurinn sem heitir líka nafni [sést ekki á myndinni]. Meira var það ekki. #erukonurtil.“

Óhætt er að segja að færslan hafi vakið mikla athygli og úlfúð meðal Íslendinga. Þar tekur meðal annars Sara Oskarsson, fyrrverandi varaþingmaður Pírata, til máls og segir: „Endurtekið og ítrekað.. óþolandi.“

Margir af þeim sem undir færsluna rita hafa orð á því að þetta slíkt sé ekki eðlilegt nú þegar árið 2021 er gengið í garð. Þetta eigi að vera búið að uppræta.

„Alveg ótrúlegt árið 2021.. Bara fáránlegt af blaðamanninum að nefna þig ekki. Eliza Reid þú ert meiri en allir þessir kallar samanlagt. Berð höfuð og herðar yfir þá, klár og flott. Reyndar var gaman sð sjá hvað þessi prins var einlægur og ánægður að sjá þig aftur. Vona að húmor og gleði hafi verið í þessari veislu og hún hafi heppnast vel,“ segir Margrét nokkur Jónsdóttir.

Undir þetta tekur Sigrún Jónsdóttir og segir: „Takk fyrir að vekja athygli á þessu, það er 2021 ef það hefur farið framhjá einhverjum,“ og bæti við reiðu lyndistákni í lok setningarinnar. Þá bætir Hafrún nokkur við og segir: „Ótrúleg hrútamenning hér enn til staðar. Litlar breytingar þrátt fyrir töluverða umfjöllun sl ár. Sorglegt“

Halldóra Hafdís Arnardóttir segir að „Konur þurfa bara að vera duglegri að heita eitthvað“ og Guðrún Ágústsdóttir bætir við. „Nei, er svarið við spurningunni. Nei, konur skipta ekki máli er boðskapur blaðsins sem birtir svona texta undir mynd. Takk Elíza. Þín orð vega þungt og hjálpa til við að færa okkur nær nútímanum,“ segir Guðrún.

Ljóst er að fréttin hefur vakið upp mikla reiði hjá íslenskum netverjum sem keppast við að hlaða Elizu lofi og úthúða í senn vinnubrögðum Morgunblaðsins.