Elísa­bet læknir birtir mynd­band af því þegar hún var hand­tekin í gærkvöldi

Elísa­bet Guð­munds­dóttir, læknir og tals­kona gegn sótt­vörnum, birtir mynd­band í opinni færslu á Face­book-síðu sinni í morgun af því þegar hún var hand­tekin af lög­reglu. Myndbandið var tekið í gærkvöldi en bifreið Elísabetar var stöðvuð við Fjarðahraun í Hafnarfirði á tólfta tímanum.

Það vakti mikla at­hygli í desember þegar Elísa­bet neitaði að fara í sýna­töku og sótt­kví við komuna til landsins frá Dan­mörku. Daginn eftir komuna til landsins fór hún á mót­mæli sem haldin voru í mið­borg Reykja­víkur gegn sótt­varnar­að­gerðum stjórn­valda.

„Hand­tekin, hand­járnuð og barin,“ segir Elísa­bet í færslu með öðru af tveimur mynd­böndum sem hún hefur birt í morgun. Á fyrra mynd­bandinu má sjá þegar lög­reglu­menn biðja hana um að koma með sér niður á lög­reglu­stöð. Svo virðist vera sem lög­reglu­þjónarnir hafi stoppað hana fyrir að mæta ekki á til­settum tíma í skýrslu­töku og því hafi hún verið eftir­lýst.

Elísa­bet tók illa í beiðni lög­reglu­þjónanna og sagði við þá að þeir þyrftu þá að bera hana. Lög­reglu­þjónninn opnar þá dyrnar á bíl hennar og biður hana að koma með sér auk þess að til­kynna henni að hún sé hand­tekin. Til orða­skipta kemur á milli Elísa­betar og lög­reglu­mannsins og á einum tíma­punkti heyrist lög­reglu­þjónninn segja: Þú sparkar ekki í lög­reglu­mann.“

Með Elísa­betu í bílnum er vinur hennar sem tekur at­burða­rásina upp á mynd­band. Á mynd­bandinu sést þegar hann fer út úr bif­reiðinni og er mjög æstur. „Verið þið góðir við hana! Annars er mér að mæta,“ segir hann meðal annars. Elísa­bet heyrist í bak­grunni gráta há­stöfum. Þess má geta að maðurinn sem tekur upp myndbandið er sá hinn sami og birti myndband af sér þegar hann var grímulaus í verslun Bónus í nóvembermánuði.

Ekki náðist í Elísa­betu við vinnslu fréttarinnar til að spyrja hana frekar út í upp­á­komuna.

Skúli Jónsson, stöðvarstjóri hjá lögreglunni í Hafnafirði, þvertekur fyrir það í samtali við Fréttablaðið að Elísabet hafi verið lamin eins og hún segir í færslu með öðru myndbandinu.

„Hún sinnti ekki kvaðningu út af málinu þegar hún kom erlendis frá. Við birtum henni kvaðningu og hún átti að mæta í yfirheyrslu þegar sóttkví lauk en mætti ekki og þetta er framhald af því. Hún var yfirheyrð og látin laus,“ segir Skúli. Hann segir málinu lokið af þeirra hálfu og það fari næst til ákærusviðs sem tekur ákvörðun um framhaldið. „Lögregla er ekkert að berja fólk, það er svoleiðis. Hún var handtekin út af þessu máli,“ segir Skúli að lokum.

Fleiri fréttir