Eldbakaðar pizzur í pizzahorninu út á palli eru draumi líkast

Berglind Hreiðarsdóttir sælkera- og kökubloggari verður hjá Sjöfn Þórðar í þættinum Matur & Heimili á mánudagskvöld:

Margir hafa verið iðnir að nostra við heimili sín bæði innan- og utandyra undanfarin misseri og vita fátt betra en að geta notið ánægjulegra og nærandi samverustunda í faðmi fjölskyldunnar á heimilinu. Berglind Hreiðarsdóttir köku- og matarbloggari og ekki síður fagurkeri með meiru eignaðist draumapallinn fyrir rúmu ári síðan. Hún betrumbætti pallinn nú í haust og fékk það sem var efst á óskalistanum „pizzahorn“ út á pallinum.

M&H_Pizzan BH 19.10.2020.jpg

Sjöfn Þórðar heimsækir Berglindi í nýjasta hlutann, pizzahornið sem er hið glæsilegasta með ítölsku ívafi. Hönnunin á pizzahorninu kemur mjög vel út bæði hvað varðar fagurfræðina og notagildið. Þarna er í raun komin viðbót við heimilið, útieldhús með pizzaofni þar sem hver hlutur fær að njóta sín. „Ég er ótrúlega hamingjusöm með pizzahornið mitt og við fjölskyldan vitum fátt skemmtilegra en að baka saman pizzur í pizzahorninu,“ segir Berglind og bætir jafnframt við að þau nýti hvert tækifæri þegar vel viðrar til að eiga saman gæðastund við pizzubaksturinn. „Hver og einn fær að gera sína uppáhalds pizzu og síðan njótum við hvers munnbita í kosýheitum á fallegum kvöldum,“segir Berglind. Aðspurð segir Berglind að úti pizzaofninn er hreinasta snilld og lyftir eldamennskunni upp á hærra plan þegar kemur að pizzubakstrinum. Berglind bakar að sjálfsögðu pizzur í tilefni heimsóknar Sjafnar og leyfir henni að smakka.

M&H Sjöfn Þórðar og Berglind Hreiðars

Berglind er ekki þekkt fyrir annað en að fara alla leið þegar kemur að því að setja saman matseðil og segir að til að toppa máltíðina sé mikilvægt að bjóða uppá eftirrétt. Engin undantekning er á því þegar Sjöfn ber að garði og býður Berglind uppá dýrinds Marengsdúllur í eftirrétt, með löðrandi ljúffengri karamellusósu sem gleður bæði auga og munn. Hvað skyldi nú vera í karamellusósunni? Berglind gaf út á dögunum uppskriftarbókina Saumaklúbburinn og eru Marengsdúllurnar meðal þeirra uppskrifta sem þar leynast.

M&H pizzahornið í stemningslýsingu 19.10.2020.jpg

Missið ekki af áhugarverðu innliti í pizzahornið hennar Berglindar Hreiðars

Þátturinn Matur & Heimili er á dagskrá öll mánudagskvöld klukkan 20.30 og er að jafnan ferskur, fjölbreyttur og með persónulegum blæ.