Ekki sakfella nema hægt sé að haka við öll þessi atriði

Við Ís­lendingar teljum okkur búa í réttar­ríki. Út­verðir þess í okkar skipu­lagi eru stofnanir sem við höfum komið upp og eiga að tryggja að þetta orð hafi efnis­legt inni­hald þegar á það reynir. Þetta eru dóm­stólar. Í refsi­málum er það megin­hlut­verk þeirra að tryggja réttar­öryggi þeirra borgara sem sökum eru bornir. Þetta er göfugt hlut­verk, þó að stundum kunni það að verða van­þakk­látt. Á­stæða þess er þá oft sú að margir aðrir borgarar verða svo upp­teknir af hug­lægum per­sónu­legum skoðunum sínum á sak­borningnum og brotinu, sem hann var sakaður um, að þeir skeyta ekki um hvernig sak­felling horfi við reglum réttar­ríkisins.

Því miður hefur það gerst að starfandi dómarar virðast líka hafa misst sjónar á framan­greindu megin­hlut­verki sínu og þá látið undan meintum vilja úr um­hverfinu, sem skeytir ekki um megin­reglurnar. Þess vegna vil ég nú reyna að telja upp þýðingar­mestu reglurnar sem dómarar þurfa að beita í störfum sínum í saka­málum. Vil ég gerast svo djarfur að beina því til allra þeirra sem fara með dóms­vald í landinu og sam­sinna mér að prenta þessar reglur út og hafa þær við hendina í störfum sínum. Þeir ættu svo að strengja þess heit að sak­fella ekki þá sem fyrir sökum eru hafðir nema að hafa áður getað hakað við öll at­riðin á listanum.

  1. Laga­heimild til refsingar þarf að vera í settum lögum. Efni hennar þarf að vera skýrt og ber að túlka vafa sak­borningi í hag.
  2. Ekki má dæma sak­borning fyrir aðra hátt­semi en þá sem í á­kæru greinir.
  3. Heim­færa þarf hátt­semi til laga­á­kvæðis af ná­kvæmni. Dóm­endur hafa ekki heimild til að breyta efnis­þáttum í laga­á­kvæðum sak­borningum í óhag.
  4. Sanna þarf sök. Sönnunar­byrði hvílir á hand­hafa á­kæru­valds.
  5. Við með­ferð máls á á­fryjunar­stigi þarf að gæta þess að dæma sama mál og dæmt var á neðra dóm­stigi. Til endur­skoðunar eru úr­lausnir á­frýjaðs dóms; ekki annað.
  6. Sak­borningar eiga rétt á að fá ó­heftan að­gang að gögnum sem aflað hefur verið við rann­sókn og með­ferð máls.
  7. Sak­borningar eiga að fá sann­gjarnt tæki­færi til að færa fram varnir sínar.
  8. Dómarar, sem dæma, verða að hafa hlut­lausa stöðu gagn­vart sak­borningum.

Ef dóm­endur gæta þess að hafa þessar reglur á­vallt í heiðri geta þeir verið stoltir af starfi sínu og því verk­efni sem þeir þannig sinna af kost­gæfni.

Jón Steinar Gunn­laugs­son er fyrr­verandi dómari við Hæsta­rétt Ís­lands