Ekið á hana þegar hún gekk yfir gang­braut – Hundurinn dó sam­stundis

Héraðs­dómur Norður­lands eystra hefur dæmt konu tvær milljónir króna í bætur eftir að ekið var á hana og hundinn hennar á Akur­eyri í nóvember 2017. Konan var að ganga yfir gang­braut með hundinn sinn þegar bif­reið var ekið á þau. Konan slasaðist á fæti en hundurinn drapst sam­stundis.

Í dómi kemur fram að konan hafi fót­brotnað og þurfti hún að dvelja á sjúkra­húsi í fimm daga. Áreksturinn var nokkuð harður og kastaðist konan um fimm metra út af akbrautinni en hundurinn kastaðist rúma 20 metra.

Fyrir dómi var deilt um það hvort öku­maður bif­reiðarinnar hefði sýnt af sér stór­fellt gá­leysi þegar hann ók á konuna og hundinn. Bif­reiðin er talin hafa verið á 63 til 72 kíló­metra hraða, en 50 kíló­metra há­marks­hraði er á þeim slóðum sem slysið varð, á Hörg­ár­braut, skammt norðan Gler­ár­brúar. Veður var ágætt þegar slysið varð, hiti rétt fyrir neðan frostmark og myrkur úti en ljós frá ljósastaurum við akbrautina.

Að mati dómsins gætti öku­maður ekki að því að haga öku­hraða eftir að­stæðum, er hann ók um­fram há­marks­hraða á 63 til 72 kíló­metra hraða án þess að hafa at­hygli á gang­brautinni sem var fram undan og merkt sem slík.

„Af fram­burði stefnda B sjálfs og vett­vangs­rann­sókn lög­reglu er sýnt að hann átti að­eins tæp­lega sex metra ó­farna að gang­brautinni þegar hann sá stefnanda og brást við með því að hemla og beygja til vinstri en þá var það orðið of seint. Þykir liggja fyrir að stefndi B hafi ekki haft þá at­hygli á akstrinum sem honum bar og er það mat dómsins að það frá­vik frá þeirri hátt­semi sem honum bar að við­hafa við þær að­stæður sem uppi voru feli í sér stór­fellt gá­leysi af hans hálfu. Hefur hann með því bakað sér bóta­skyldu,“ segir í niður­stöðu dómsins.

Var maðurinn og trygginga­fé­lag hans Vörður dæmd til að greiða konunni sam­eigin­lega tvær milljónir króna á­samt vöxtum. Þá var þeim gert að greiða sameiginlega sakar­kostnað, sam­tals tæp­lega 1,2 milljónir króna.