Eiríkur ráðþrota vegna ákvörðunar dóttur sinnar

Fjölmiðlamaðurinn þrautreyndi Eiríkur Jónsson deyr sjaldan ráðalaus en nú er hann hreinlega ráðþrota vegna ákvörðunar dóttur sinnar.

Eiríkur skrifar stuttan pistil á vef sinn, Eirikurjonsson.is, sem ber yfirskriftina Bréf frá ritstjóra. Við pistilinn er gömul og falleg mynd af honum og dóttur hans, Hönnu Eiríksdóttur.

Hanna fetaði einmitt í fótspor föður síns og starfaði um tíma sem blaðamaður og síðar varð hún markaðsstjóri lúxussúkkulaðigerðarinnar Omnom. Í pistli sínum útskýrir Eiríkur málið á gamansaman hátt:

„Dóttir mín hefur ákveðið að skipta um nafn og heita framvegis Hanna Eiríksdóttir Mogensen (mamma hennar er Mogensen!). Lagði til að hún hefði þá Mogensen sem millinafn en mitt aftast. Því var hafnað. Hótaði þá að breyta nafninu mínu í Eiríkur Kjerúlf. Virkaði heldur ekki. Ráðalaus.“